Konurugl

Saturday, March 29, 2008

Mér líður svo vel

Ótrúlegt hvað ég er búin að vera fljót að jafna mig. Erfitt að trúa því núna hversu kvalin ég var fyrir rúmum 2 vikum.

Líkamsástand:

Ég er hætt að finna til í grindinni, en það brakar og smellur stundum í henni, svona eins og þegar þetta var allt að byrja. Hætti að bryðja íbúfen um miðja þessa viku. Millirifjagigtin líka farin.

Úthreinsunin er miklu minni en eftir fyrsta barn. Þá leið mér bara illa innan um fólk og hún stóð þá yfir í næstum 6 vikur. Ég vona að hún verði eitthvað styttri í þetta skiptið.

Ég er komin í sömu þyngd og fyrir meðgöngu, en það tók ekki nema viku. Svo komst ég í gallabuxurnar mínar núna í vikunni. Mjög sátt. Nú er bara að bíða eftir að jelly-belly gangi betur saman. Ég var reyndar mjög heppin að slitna ekki neitt. Er með 3 slit eftir Ara.

Æ þetta verður bara stutt blogg núna. Dramadrottningin vöknuð.

kv. Elsa

Wednesday, March 19, 2008

Litla daman að verða viku gömul

Tíminn er alltaf jafn fljótur að líða þegar maður er kominn með kríli í hendurnar. Síðustu dagar eru bara búnar að snúast um brjóstagjöf og hvíld.

Litla daman:
Hún er mjög vær og góð. Fyrsta sólahringinn hékk hún á brjóstinu og var ég mjög þreytt. Næsta sólahring var hún farin að sofa 2 klst á milli. Á sunnudaginn byrjaði stálmatímabilið hjá mér, ákkúrat þegar ég var að fara heim. Hún var svo þreytt á mánudag, að ég var í mestu vandræðum með að losna við stálman. En svo breyttist það allt í gær. Hún saug og saug og saug, og nú finnst mér brjóstin alltaf vera tóm. Hún sefur ótrúlega vel á næturnar. Vaknar 1 sinni til að drekka. Í dag verðlaunaði ég hana svo með snuddu, en hún er soldið að nota brjóstin sem snuddu. Mér sýnist á öllu að við séum með annað draumabarn í höndunum, jafnvel meira spari en Ari var fystu vikurnar.

Ari Þröstur:
Ari Þröstur er búinn að vera æðislegur. Hann er reyndar ekki mikil barnagæla, en hann á það til að kíkja á litlu. Hann hefur svo alltaf spurt á morgnana þegar hann vaknar hvort hann megi sjá litla barnið. Hann skoðar það og klappar smá á því. Enn höfum við ekki séð merki um afbrýðisemi. En mér er ekki að ganga eins vel og ég ætlaði að vera frá barninu, til að vera með honum. Þegar hann kemur úr leikskólanum, er ég oft orðin of þreytt til að gera nokkuð með honum.
Þegar hann kom í heimsókn á sjúkrahúsið, þá fannst mér hann vera allt annað barn. Hann var miklu stærri, með risastór falleg augu, og bara fallegasta barn sem ég hafði augum litið. Þegar ég kom heim tók við erfitt tímabil. Mér fannst ég vera búin að missa öll tengsl við hann og varla þekkja hann lengur. Ég er búin að vera miður mín yfir þessu. Ég hef sem betur fer náð að taka kvöldrútínuna með honum síðustu 3 kvöld, sem hefur alveg bjargað þessu. Vona bara að ég nái að fá meiri frið með honum á næstunni.

Arnar:
Það er æðislegt að hafa Arnar heima. Hann er frábær húsmóðir. Ég hef alveg náð að hvíla mig. Hann er búinn að sjá um bókstaflega allt. Þetta er svo allt annað en síðast.

Ég:
Mér er búið að líða nokkuð vel. Var þreytt fyrstu sólahringana. Gat ekkert sofnað eftir fæðinguna, var eitthvað voða hátt uppi. Svo næsta nótt eftir fór í brjóstagjöf. En síðan hef ég fengið að sofa nokkuð vel. Ég tók svo út smá sængurkonugrát á sunnudaginn, en það er víst eðlilegt þegar mjólkin er að aukast. Bæði var það út af Ara, og svo var ég mynt óþægilega á það að ég yrði föst yfir barninu næstu mánuðina í brjóstagjöf. Mig langaði svo mikið að snúa við og fara aftur á sjúkrahúsið. Hefði alveg mátt vera eina nótt í viðbót. Man það bara næst :-)

kv. Elsa

Sunday, March 16, 2008

Fæðingarsagan

Hér er fæðingarsagan, hún er kannski óþarflega ítarleg, en þetta er svona gert fyrir mig til að eiga auðveldara með að muna.

Ég vaknaði rúmlega kl. 03. Ég ætlaði að skipta um hlið til að sofa á, en þar sem ég var eins og skjaldbaka með ónýtt bak og grind, þá tekur það verulega á. Þegar ég byrjaði að mjaka mér, fann ég eitthvað streyma í nærbuxurnar. Ég hugsaði að ef þetta væri vatnið, þá yrði ég að stökkva fram úr rúminu, því ekki vildi ég að rúmið færi á flot. Ég veit ekki hvar ég fékk allt í einu þennan extra kraft, en ég stökk fram úr og og þá byrjaði að leka á fullu og ég hljópa af stað inn á klósett og kallaði á Arnar að í leiðinni og tilkynnti honum um vatnslekan. Svo gossaði restin í klósettið.

Ég ákvað að ráðfæra mig strax við ljósu um framhaldið. Hún sagði mér að leggja af stað þegar ég væri komin með reglulega verki á 10 mín fresti. Ég var aðeins farin að fá verki í lok símtals, settist svo í tölvuna og byrjaði að mæla á contractionmaster.com, sem er bara snilld. Verkirnir komu fyrst á 4 mín fresti, svo 3 mín fresti. Á meðan var amman ræst út, og klárað að setja niður í töskur. Um leið og amman var komin var rokið út. Verkirnir voru orðnir svakalega miklir, en ég hugsaði allan tíman að fyrst að ég gat þetta síðast þá hlyti ég að geta þetta núna.

9 samdráttum síðar eða kl. 4.30 þá vorum við komin upp á Skaga í mælingu. Hún byrjaði á að þreifa mig, og þá kom sjokkið. Ég var aðeins með 3 í útvíkkun, ennþá. Ég var að vonum mjög vonsvikin, og ljósan sagði að þetta myndi örugglega verða komið um hádegi. Úff, miðað við verkina þá var ég ekki alveg viss um að ég myndi meika það. Ég ákvað að drífa mig á klósettið, því ég hafði á tilfinningunni að ég þyrfti að gera nr. 2. Ég fór, en reyndi að passa mig að vera ekki að rembast þegar verkirnir voru. Þarna byrjuðu verkirnir að koma með miklu styttra millibili. Ég náði nú ekki að losa mikið, og sá ljósan ekki ástæðu fyrir að láta mig klixa, þar sem hún fann ekki fyrir miklu þegar hún hafði þreifað mig. Um þetta leiti voru verkirnir orðnir það sárir og örir að ég var farin að huga að náttúrulegum deifingaraðferðum. Inga Huld ljósmóðir bauð mér þá að fara í baðið, og fór og setti það í gang. Á meðan var ég orðin svo kvalin að ég gat ekki staðið lengur í fæturnar. Þegar ljósan kom til baka spurði hún hvort ég væri með þrýsting niður í endaþarm, og ég játti. Þá vildi hún skoða mig aftur. Og þá var ég komin með 4 í útvíkkun. Þarna var ég alveg farin að missa vonina, og skildi ekki hvernig ég hafði farið að lyfjalaus með Ara. Mér var boðið að fara í baðið en það var komið smá vatn í karið. Þegar ég kom ofaní var mér allri lokið. Ég sagði Arnari að sækja ljósuna því ég væri með geðveika rembingsþörf og gæti ekki stjórnað henni. Hún skoðaði mig í baðkarinu, og tilkynnti að ég væri að eiga, bað mig um að koma úr baðinu og halda í mér. Að halda í sér er ekki létt verk. Og óhlýðnaðist smá, reyndi svo bara að halda við gatið meðan ég færði mig inn í fæðingarherbergi :-) Eftir 4-5 rembinga var svo barnið komið, eða kl. 5.53, eða 8 mín frá því í baðinu. Stelpan fæddist með hendina undir vanga, þannig að ég rifnaði smá. Hún var farin að gráta áður en hún var að fullu komin í heiminn. Hún var 3.305 gr. og 51 sm, með svartan lubba. Hún er mjög lík bróður sínum, nema öll fíngerðari.

Ég er mjög ánægð með fæðinguna. Það var æðislega gaman að fá rembingstilfinninguna, en ég fékk hana aldrei síðast, þar sem var verið að reyna að koma barninu í heiminn sem fyrst, og mér var bara sagt til hvað ég ætti að gera. Svo er náttúrulega gaman líka að prófa að missa vatnið. En vá hvað ég skil konur núna sem fá verkjalyf, þegar vatnið er farið þá er þetta skelfilegir verkir.

meira síðar
kv. Elsa og kisulóra

Thursday, March 13, 2008

Síðustu fréttir fyrir sjúkrahúsferð

Nú er allt að gerast. Missti vatnið kl. 3, og er komin með harða samdrætti. Er að mæla á milli. Vona bara að ég nái upp á Skaga, því verkirnir eru að koma frekar ört :-/

kv. Elsa sem er að verða 2 barna móðir innan skamms

Wednesday, March 12, 2008

Fyrsta fíluferðin

Í gær var ég með reglulega samdrætti frá kl. 13. Um 15 var orðið stutt á milli, en engir verkir. Svo ég ákvað að ræsa alla út. Við vorum komin á SHA upp úr fimm. Mónitorinn leit mjög vel út, allt að gerast. En útvíkkunin var bara 2-3. Ljósan sagði okkur að fara bara og finna okkur eitthvað að gera og koma svo aftur þegar ég væri komin með meiri verki.

Við fórum og rúntuðum smá og keyptum svo mat handa okkur og Berglindi. Berglind greyjið sat uppi með okkur til kl. 23 í gærkvöldi. En þá var orðin smá óregla á samdráttunum. Við ákváðum samt að fara í tékk. Þar kom í ljós að ég var enn bara í 3 í útvíkkun. Kollurinn er reyndar kominn frekar neðarlega. Þessi ljósa sagði að konur sem hefðu átt áður, gætu verið með 3 í útvíkkun í langan tíma áður en nokkuð gerðist. Djíii, gat hinn ekki gubbað því út úr sér, þá hefðum við pottþétt farið strax heim. Ég var svo send heim með verkjatöflur og svefntöflu.

Ég átti svo æðislega góðan og djúpan svefn í nótt. Er reyndar þreytt ennþá, svaf bara í 5 tíma. En það er allt dottið niður.

Ég er reyndar með eina kenningu. Ég þekki tvær konur í fiskamerkinu, og þær eru fullkomnustu húsmæður í heiminum, allavega samanborið við mig. Og nú á ég von á lítilli fiskadömu. Ég held að hún vilji ekki koma fyrr en allt er orðið fínt hérna heima. Ég náði að þrífa baðherbergið í gær. Er búin með svefnherbergið. Á núna bara eftir að laga smá til og sópa og skúra, þá hlýtur hún að koma :-)

Jæja, ætla að prófa að lúlla smá meira.

kv. Elsa 40v og 3d

Monday, March 10, 2008

Gengin framyfir?

Ég bjóst nú aldrei við því að verða 40+, en nú hefur það gerst. Ég er samt að pæla í að neita að ganga fram yfir. Ef ég miða við blæðingarnar þá ætti ég að vera sett 11. eða 12 mars og ef ég miða við þann dag sem ég tel að getnaður hefur átt sér stað, þá er það 13. mars, eða ég held allavega í þá trú að barnið hafi komið undir á afmælinu mínu. Þannig að nú hef ég 4 daga upp á að hlaupa :-)

Ég er núna orðin það orkumikil, að ég er að komast í gömlu rútínuna aftur. Búin að vera rosalega dugleg að taka til í morgun, er reyndar núna soldið þreytt í bakinu. Svo ætla ég núna bara að halda mínu striki og láta eins og ég sé ekkert að fara að eiga. Er búin að fresta svo mörgu, því ég held alltaf að barnið sé alveg að koma.

kv. Elsa sem er gengin 40+

Sunday, March 09, 2008

Settur dagur

Nú er 9. mars kominn, og lítið sem ekkert að gerast. Var reyndar með reglulega samdráttaverki í morgun og brjóstin láku sem aldrei fyrr. Ég var viss um að nú væri þetta að gerast. En um leið og ég fór á fætur hættu verkirnir og stuttu síðar hættu samdrættirnir að vera reglulegir. Ég er orðin nett pirruð.

Reyndar naut Ari þess að fara með pabba sínum í páskabingó í morgun. Hann dró björg í bú. 3 páskaegg. Hvað á maður að gera við þetta allt. Langaði svo að gefa honum strumpaegg, því hann dýrkar strumpana núna. En ætli það verði ekki að býða. Mig langaði sjálf í lakkrísegg, því mér finnst svo erfitt að borða eintómt súkkulaði. En ætli við verðum ekki að halda okkur við þessi.

Við fórum svo fjölskyldan í hádeginu á hamborgarabúllu Tómasar í Bíldshöfðanum, sem er ekki frásögu færandi, nema þegar þangað var komið fór ég með Ara á klósettið og svo fékk hann að fara í leikherbergið. Þegar ég og Arnar vorum búin að sitja einhverja stund og spjalla, þá heyrði ég kallað mamma, mamma, mamma. Hjartað á mér kramdist þegar ég sá að hann var ekki í leikherberginu. Arnar þaut af stað. Ég sat ein í dágóðan tíma, áður en ég ákvað að athuga hvað væri að barninu mínu. Þá hafði litlu kútur gert sig heimakominn og farið á klósettið að kúka, og vantaði bara að láta skeina sig :-)

Já fyrir utan þetta þá fer 70% af tímanum mínum í að hugsa um hvenær þetta barn ætli að láta sjá sig. Búin að greina allt, búin að reyna að rifja upp allan aðdragandan að síðustu fæðingu. Er komin með þetta á heilan.

Ég hlakka til að fá líkama minn aftur.
Ég hlakka til að fá að prófa að vera ekki ólétt í Tröllakór.
Ég hlakka til að þurfa ekki að hugsa mig tvisvar um áður en ég reyni að tína dót upp úr gólfinu.
Ég hlakka til að geta labbað rösklega og farið í göngutúra.
Ég hlakka til að getað þrifið baðkarið.
Ég hlakka til að getað fengið mér bólgueyðandi.
Ég hlakka til að geta fengið mér Sushi.
Ég hlakka til að geta lyft þungum hlutum.
Ég hlakka til að fá heilsuna mína aftur.

kv. Elsa 40 vikur

Thursday, March 06, 2008

Langur dagur í gær

Gærdagurinn var langur, ekkert letilíf. Náði ekkert að leggja mig fyrir mæðraskoðunina. Eins og vanalega kom allt mjög vel út. Ég þyngdist reyndar slatta 1,5 kíló, en eitthvað á bjúgurinn þátt í því, enda bles ég út á þriðjudaginn. Ég varð eiginlega bara pínu hrædd þegar hún fór að tala um að ég myndi bara koma í tvær skoðanir í viðbót, og svo yrði ég sett í gangsetningarferli. Allt í einu er það orðinn möguleiki. Núna er ég búin að fara í 1 fleiri skoðanir en með Ara. Annars finnst mér ólíklegt að þetta dragist eitthvað mikið á langinn. Samdrættirnir og verkirnir aukast með hverjum degi sem líður. Er búin að vera með túrverki frá því ég vaknaði, og samdrætti af og til. Miklu meira að gerast heldur en síðastliðna daga.

Ég fór í nálastungu eftir hádegið. Fékk viðeigandi meðferð á bakinu, en svo stalst hún til að setja á nokkra punkta sem geta komið manni af stað. Hún notaði reyndar bara fínar nálar, sem eru með minni virkni. Ef ekkert gerist núna, þá á ég að hringja í hana eftir helgi og við ákveðum hvenær ég fæ stóru bombuna.

Bakið er orðið mjög fínt. Hóstinn nánast farinn, bara einstaka gelt. Þarf ekki lengur að koma mér í stellingar áður en ég get hóstað. En vá hvað grindin fór í gær. En það er allt í lagi, því ég veit að ég á ekki eftir að finna fyrir henni í fæðingunni. Þarf bara að passa mig að hvíla mig.

Ég miða allt út frá síðustu fæðingu. Ef ég er ekki byrjuð að fá reglulega verki kl. 13 á daginn, þá er ég umsvifalaust búin að afskrifa þann dag :-) Ef ég verð ekki vör við slímtappa þegar ég vakna á morgnana, þá er ég líka nánast búin að afskrifa þetta, en held í vonina fram til kl.13.

jæja best að gera eitthvað smá að viti

kv. Elsa 39v4d

Tuesday, March 04, 2008

Hún er komin :-)

Já loksins loksins. Langþráð breyting. Tölvan er loksins komin. Nú get ég legið á netinu þar til barnið kemur.

Ég er búin að skána mikið í bakinu. Á morgun fer ég svo í nálastungu, og vona að Eygló mín geri kraftaverk fyrir mig. Ég allavega kvíði ekki fæðingunni miðað við ástandið núna.

Arnar er búinn að finna sína innri konu. Hann er búinn að standa sig hrikalega vel í húsmóðurstörfunum. Á sunnudaginn fór hann og keypti vöggu handa barninu, fór í bakarí og keypti í kvöldmatinn. Sópaði og skúraði og eldaði svo lambalæri og með því. Hann hefur svo séð um að skutla og sækja Ara í leikskólan, elda og vaska upp. Ekkert smá duglegur, ég er svo stolt af honum.

Rútinan á daginn hjá mér er eitthvað voða furðuleg þessa dagana:

Vakna milli 7.30 -8 með Ara og Arnari. Gef Ara að borða og klæði hann á meðan Arnar tekur sig til (reyndar bara tvo síðustu morgna, komst ekkert fram úr hina morgnana).
Fer í bað til að skola af mér nætursvitan og mýkja upp bakvöðvana.
Fer og legg mig.
Vakna um hádegisbil, fæ mér hádegismat og horfi á hádegisfréttir ef þær eru ekki búnar.
Ligg áfram í sófanum og reyni að finna eitthvað í sjónvarpinu. Sofna svo yfir sjónvarpinu.
Um 3 leitið geri ég eitthvað smá eins og að setja í eina þvottavél eða svo.
Milli 16-17 koma strákarnir mínir heim.
Ég og Ari horfum á sjónvarp eða förum í playstation meðan Arnar reynir að vinna heima.
Arnar og Ari fara og elda kvöldmat og ég fæ að vafra í vinnutölvunni hans Arnars.
Ég fæ kvöldmat.
Hjálpa til að setja Ara í náttfötin og Arnar kemur svo og les tvær bækur fyrir mig og Ara (Ari sefur enn uppí).
Þegar Ari er sofnaður fer ég í bað nr. 2.
Kíki svo aðeins á sjónvarpið og í tölvuna.
Fer að sofa.
Vakna 2 klst síðar með hósta.
Hita sítrónu-hunangsvatn og horfi á sjónvarpið í 2 klst.
Sofna fljótt ef hóstinn er farinn.

Já þetta er mjög mikil dagskrá hjá mér. Reyndar þarf ég að fara út úr húsi á morgun. Þarf líka að fara í mæðraskoðunina. Verður eitthvað minna um svefn. Barnið nennir örugglega ekkert út í þessu letilífi. Annars sagði puttinn minn að ég myndi eiga 6. mars. Spurning hversu góð "loka-augum-og-benda" aðferðin er.

kv. Elsa letipúki

Monday, March 03, 2008

Kokteill dagsins

40 ml af grindagliðnun
40 ml af millirifjagigt
smá af hósta (til að millirifjagigtin kikki vel inn)
slatti af bjúg (eftir smekk)
örlítið af eyrnabólgu (til að krydda)

hristið vel saman

svo er gott að sáldra smá samdráttum og fyrirvaraverkjum yfir, en mjög óreglulega.

SKÁL!

Saturday, March 01, 2008

Millirifjagigt

Fór til læknis í morgun, þar sem ég var hætt að geta hreyft mig. Hún greindi þetta sem millirifjagigt. Nú verðu barninu haldið inni þar til ég er búin að jafna mig. Liggur samt stundum við að mig langi frekar að kveljast í fæðingu og geta fengið bólgeyðandi um leið og barnið er komið.

Ég er orðin svo þreytt á þessari meðgöngu. Mér finnst ég búin að vera svo óheppin. Ég gat alveg sætt mig við ógleðina og grindagliðnunina. En eyrnabólgutímabilið var ömurlegt, og að detta tvisvar var líka ekki gaman, og svo núna þetta. Er maður orðinn of gamall til að standa í þessu?

kv. Elsa sem er himinlifandi yfir því að mars er loksins kominn.