Konurugl

Thursday, December 04, 2008

Ari, jólasveinninn og óargadýrið

Í dag var ég að skoða bækling frá Húsasmiðjunni og Ari sat við hlið mér. Í bæklingnum var jólasveinn. "Mamma hver leikur þennan jólasvein" spurði hann og ég fékk smá sting í hjartað. "Bíddu er þetta ekki alvöru jólasveinn?" spurði ég til baka. "Ég veit það ekki" sagði Ari raunamæddur. "Af hverju heldurðu að það sé einhver að leika jólasvein?" spurði ég þá. "Ég veit það ekki".

Maður vill að barnið sitt trúi sem lengst á jólasveininn, þannig að ég vona að það hafi bara verið eitthvað við þennan jólasvein sem vakti þessa spurningu. Við sögðum honum líka að jólasveinarnir væru stundum svo uppteknir að þeir leifðu sumum að þykjast vera þeir.

En ég er með í maganum að hann hafi fengið óþarfa vitneskju í leikskólanum. Og ég er með í maganum að mér finnst það vera líklegt að það sé barn sem ég er búin að vera með í maganum yfir síðustu vikuna.

Á deildinni er barn á sama aldri, sem hegðar sér illa. Og við erum bara orðin hrædd um Ara og önnur börn, því hvar endar þetta? Það hefur oftar en 1 sinni meitt Ara, og já fleiri börn. Í sumar var ég vitni þar sem Ari var að fara að renna sér að hann lamdi hann í höfuðið með skóflunni. Í síðustu viku kom Ari með ljótt sár á andlitinu því viðkomandi barn var að sparka hann niður úr stiga sem Ari var að reyna að klifra upp.

Þetta eru ekki eðlilegar stimpingar 4ra ára barns. Hann á einnig bróður í leikskólanum sem er engu skárri. Einnig eiga þeir eldri systur sem við höfum ekki fallega sögu af. Starfsfólk hefur viðurkennt að það séu einhver vandamál heimafyrir.

Hversu mikinn skaða getur 4ra ára barn veitt öðru barni? Mér er ekki sama. Ég er hrædd um Ara í leikskólanum, mér finnst öryggi hans ekki vera gætt. En hvað er hægt að gera við svona óargadýr? Það er varla hægt að gera 4ra ára "saklausu" barni að taka það úr umferð?

Ari er að mestu hættur að tala um þennan strák, en fljótlega eftir að sá byrjaði á leikskólanum, þá fór hann að taka það mjög oft fram að X væri ekki vinur sinn. Ég las eitt kvöldið fyrir hann sögu þar sem boðskapur sögunnar var að Guð elskar alla. Þá sagði Ari að guð elskar ekki X, því hann er vondur. Þá héldum við að þetta væri bara svona þessar venjulegu stimpingar sem að er á milli strákanna á deildinni og sérstaklega 3ja ára strákanna.

0 Comments:

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]



<< Home