Jæja, það eru nokkrar sálir þarna úti sem bíða örugglega eftir þessari færslu.
Það mættu 4 litlir álfar á tröppurnar hjá mér upp úr hádegi. En þar sem ég var búin að fá veður af því sem var að fara að gerast var ég nokkuð undurbúin, þeim til undrunar :-)
Ég held að mesta sjokkið var þegar þær kommentuðu á klæðaburðinn minn, og dróu fram annan klæðnað, kannski minna metinn, en kannski mikils metinn á grænmetismarkaðnum. Ég tróð mér í tómatabúning ákveðin að berjast við tárin, vitandi að ég væri prinsessa innan við beinin. Já það eru nú bara nokkur ár síðan ég fór að fíla tómata.
Leiðin lá "óvænt" til keflavíkur, þar sem aðal álfurinn býr. En þar var ég dregin í óvissuferð inn í búð, þar sem ég reyndi að lífga upp á mannlífið með frösum eins og "hvernig pissa tómatar" og " hefurðu kysst tómat" og "langar þig í tómat". Þetta var náttúrulega spunameistari á ferð. Eitthvað sem álfarnir áttu ekki von á. Ég reyndi svo að koma skilaboðum til nærstaddra að mér væri haldið nauðugri, en svo birtust 3 aðrir álfar, sem ég var alveg búin að afskrifa og var að vonum ánægð með að hitta.
Ég var svo send heimsálfa á milli. Því auðvitað þurftu álfarnir að toppa Arnar. Já á 5 mínútum var ég send frá evrópu til ameríku og komst að því að ameríkanar fíla ekki evrópska tómata, þannig að ég fór bara í fússi í sápukúlubaði.
Ég fékk svo kokteil í "Gula pollinum", en útskýring mín á litnum féll ekki góðan jarðveg, sérstaklega ekki þegar ég fór að útskýra afhverju vatnið væri svona salt. Dem hvað ég á skakka vini.
Eftir notarlegt spjall var ég rifin upp úr og fékk ég loksins að vera ég sjálf, mér til mikillir ánægju, enda varð ég að fá að nota pæjufötin.
Ég fékk svo að fara á mjög svo óvæntan stað, þar sem ég þurfti að leiðbeina bílstjóranum á réttan stað, þá vissi ég alveg að leiðin lá heim til Lísu sys. Ég roðnaði og fölnaði þegar ég sá hver var stödd við græjurnar að stilla þær. En þar var Kristína fyrrverandi magadansleiðbeinandinn minn. Ég fékk Mojito til að deifa tilfinningarnar og dansaði auðvitað eins og stjörnu sæmir.
Ég fékk svo að borða á Caruso þar sem ég fékk að vera smá stjarna í viðbót. Þetta var yndæll dagur. Svo fór að flosna upp úr hópnum, og sveitaliðið hvarf á brott og eftir sátu ég og mínir yndislegu ættingjar, sem voru tilbúnir að fylgja mér út í rauðan dauðan. En við fórum á Gauk á Stöng og biðum eftir Ný dönskum. Einn mágur bættist við í hópinn, og svo kom tilvonandi eiginmaður minn, þegar ég og Lísa systir vorum einar eftir, enn að bíða eftir að berja goðin augum. Við vorum ákveðin í að ná að dansa smá, Arnar hét því að gefast ekki upp fyrr en allt yrði Alelda. En þegar sungið var um sílíkonbrjóst, fyllstist ég brjóstaöfund og vildi láta mig hverfa. Ein pulsa með öllu, leigubíll, og rúm. Nú er klukkan orðin rúmlega þrjú og tími til að sofa. Takk fyrir mig, bestu vinkonur, systur, og frænka.