Konurugl

Thursday, April 26, 2007

Loksins mynd af árshátíðarkjólnum

Hér er loksins mynd af árshátíðardressinu mínu. Þó svo að konurnar í búðinni hafi skrifað niður á hvaða árshátið ég væri að fara, þá sá ég eina manneskju í svona kjól. En hún var í svartri peysu allan tíman. Það var reyndar fyndið að fylgjast með, því sumir kjólar voru vinsælari en aðrir. Ég sá einn kjólinn örugglega á 6 manneskjum. Systir mín átti líka tvífara. Ég bjóst svo við að allar píurnar yrðu með uppsett hár. En það voru ótrúlega margar með slegið hár, kom mér á óvart. Ég var orðin pínu stressuð yfir að allir myndu taka eftir að ég hefði ekki farið í hárgreiðslu og förðun. En skandallinn var ekki meiri en þetta.

Wednesday, April 25, 2007

Komin á smá skrið

Þá er allt að gerast í brúðkaupsmálunum. Fyrir það fyrsta þá byrjuðum við páskahelgina í þrítugsafmæli hjá Guðna. Gott kvöld í alla staði, en plötuðumst niður á Ölver, og í einhverju ölæði náðum við okkur í brúðkaupssöngvara :-)

Ok þetta hljómar kannski illa, en ég hafði lengi vel haft augastað á Svavari Knúti. Ég losna ekkert svo auðveldlega við hann úr lífi mínu. Hann er á flókinn hátt farinn að tengjast inn í fjölskylduna líka. Ég lofa Linda (ef þú lest þetta) að hann fær ekki að syngja sömu lög og í þínu brúðkaupi :-)

Við erum líka búin að fá ljósmyndara í brúðkaupið, sem er reyndar besti vinur Svavars og kærasti frænku minnar. Ég treysti Stefáni fullkomlega fyrir að ná því besta út úr fólki :-)

Við skutluðumst um síðustu helgi loksins að Tungu og lágum á rúðunum á Skessubrunni, en ábúendur eru erlendis. Okkur leyst miklu betur á þessa staðsetningu heldur en Fannahlíðina. Voða kósí sveitafílingur. Nú er öll plön okkar farin að snúast út frá Skessubrunninum. Svo er spurning, hversu mikið þarf að borga fyrir herlegheitin.

Já og ég er loksins búin að staðfesta kjólinn og láta taka myndir. Það var nú bara sigur út af fyrir sig. Nú má ég ekki bæta á mig grammi, aðhald til 21. júlí. Sem betur fer verð ég fyrst til að fá að skera kökuna :-)

Í hádeginu vorum við svo að ljúka viðtali við veisluþjónustu. Fáum vonandi tilboðið í dag, og ef við samþykkjum, þá fáið þið að sjá matseðilinn von bráðar :-)

Á morgun er það svo Guttenberg. Og það verður sko ekkert gubb, mússí, mússí boðskort. Jú kannski pínu.

Já minns er í stuði. Svo ætla ég að taka Bexið mitt í pant þarnæstu helgi, er ekki tími til komin að við kíkjum í búðir :-)

Friday, April 20, 2007

Sjálp!!!

Ég hef undanfarna mánuði verið dugleg að stinga hausnum í sandinn þegar huginn hvarflar að brúðkaupinu. Hvenær á maður að hafa tíma fyrir þetta? Nú er erfiðasta tímabilið í vinnunni byrjað, sem líkur um miðjan júní. Arnar er á kafi í sinni, og ég sé hann nánast bara í rúmminu á kvöldin og á morgnana. Útaf hverju er ég ekki ofurkona sem get gert allt í einu? Langar ekki einhverjum að skipuleggja brúðkaupið mitt og gefa mér það í brúðkaupsgjöf :-)

Datt inn á þessa könnunn á heimasíðu Kristínar. Ég skoraði 190 stig. Hæst er 300 stig og þá er maður úber mikil kona, og mér skilst að það sé hægt að fara alveg niður í mínus stig, en þá er maður helvíti mikill karlmaður.

http://edda.is/Net/front.aspx?b=karlkona

Wednesday, April 18, 2007

Ég er fullkomin

Það er ekki á hverjum degi sem manni er sagt að maður sé fullkominn :-)

En hjúkkan sagði mér það áðan. Ég var í árlegu heilsufarstékki. Breytingin frá í fyrra er ég hef hækkað um 1 sm. Reyndar hélt ég í fyrra að ég væri 173, en fékk staðfestingu fyrir nokkru að ég er 174. Ég er í kjörþyngd en slefa alveg í það, alveg á mörkunum. Er búin að bæta við mig 3 kílóum frá í fyrra. Er búin að hækka aðeins í blóðsykri 5,2 er samt fínt. Kólestrólið lækkar enn er nú Lo. Blóðþrýstingurinn 79/123 gæti ekki verið betri. Var soldið lág í fyrra.

Annars varð ég vitni að leiðindaratburð í morgun. Ég var í biðröð til að komast í heilsutékkið, og heyri allt í einu kallað á hjálp úr herberginu. Þegar ég opnaði hurðina lá karlmaður á grúfu á gólfinnu, meðvitundalaus. Sem betur fer komst hann til meðvitundar fljótt. En vá hvað þetta hefur samt áhrif á mann. Hjartað fór á fullt, og ég var með pínu skjálfta á eftir. Sem reyndar lagaðist með smá búðarferð. En ótrúlegt hvað svona getur haft áhrif á mann sjálfan. Vona bara að það sé í lagi með strákinn. En við vorum rekin í burtu, og hjúkkan var að bíða eftir lækni þegar ég yfirgaf aðstæður.

kv. Elsa fullkomna

Monday, April 02, 2007

Árshátíð Glitnis

Laugardagskvöldið var æði. Mættum í fordrykk hjá yfirmanni mínum um 5 leitið. Þar var allt fljótandi í áfengi og æðislegar snittur og sushi. Við fengum svo einkarútu í partíið. Það var mjög spes að keyra í Laugardalshöllina, því alls staðar voru rútur, annað hvort búnar að skila eða á leiðinni niður í höll. Ég hef aldrei séð eins mikið af rútum á einum degi.

Í höllinni var kósí stemmning, djass og fordrykkur. Reyndar lyktaði drykkurinn eins og gúmmíbirnir og smakkaðist eins, þannig að eitt glass fór hægt niður. Borðið okkar var á æðislegum stað, við dansgólfið, gott útsýni á sviðið, og stutt á næsta bar. Maturinn var góður, nóg af áfengi og hugsað fyrir nákvæmlega öllu. Þarna var mojitobar og nætursnarlsbar. Á kvennaklósettinu voru túrtappar, bindi og sokkabuxur.

Skemmtiatriðin voru ekki af verri endanum. Toggi (whos that) spilaði. En borðið okkar velti mikið fyrir sér hver þetta væri eiginlega, svo kom í ljós að hann sat á borðinu við hliðina á okkur ásamt konu :-) Svo fengum við þrusuræðu frá Bjarna Ármanns. Myndband þar sem síðastliðið ár var gert upp. Svo steig á stokk Páll Óskar og Glitnismaðurinn sem lenti í 3. sæti í júró og tók það lag og gay pride lagið. Veislustjóri var hinn frábæri Sigmar Guðmundsson, sem skilaði sínu mjög vel.

Fyrir balli spiluðu Straumar, og söngvararnir voru Stefán Hilmars, Bjöggi Halldórs, Eyvi, Regína Ósk og Björn Jörundur. Ég tjúttaði eins mikið og ég gat, eða þanngað til skórnir fóru að segja til sín. Enda var þá kominn tími á reykpásu. Boðið var upp á 6 leiðir í sætaferðum frá höllinni, en við enduðum á að taka taxa, þar sem nætursnarlbarinn var ekkert sérstakur. Ég, Arnar og Alma gripum pizzu og Devitos og fórum svo hver til síns heima, þreytt og ánægð.