Konurugl

Monday, September 29, 2008

Skrítnir tímar

Í dag varð ég ríkisstarfsmaður. Eitthvað sem ég átti ekki von á þegar ég fór að sofa í gær. Á maður að þora að fara að sofa núna?

Þrátt fyrir að það kreppi að hjá manni, þá finnst mér eitthvað svo ótrúlega spennandi við þessa tíma sem við lifum á núna. Maður er spenntur að sjá hvað gerist næst, hvar endar þetta? Lifi ég þetta af?

Versta er að horfa upp á heimilin lenda illa í þessu. Ég er mjög fegin að hafa ekki tekið erlend húsnæðislán. En verðtryggingin, eigum við eitthvað að ræða hana? Ég er að fá gubbuna yfir því að Íslendingar séu bara sáttir við að borga lánin sín margfalt til baka. Afhverju er þetta ekki ólöglegt? Íslendingar þurfa að þræla sér út, án þess að eignast nokkurntíma nokkuð, þegar nágrannar okkar eru að kaupa hús og borga upp á nokkrum árum.

jæja litla vöknuð..

Thursday, September 18, 2008

Dagur 5: Kallinn kemur í nótt

Síðastliðin nótt var erfið. Ég svaf lítið. Sigurást var alltaf að vakna og einhverstaðar milli 5 og 6 var hún ákveðin í að fara á fætur. Sofnaði svo aftur uppúr kl. 6.30 og tók 40 mínútna lúr :-(

Ég ákvað að ýta ekkert á eftir Ara Þresti í morgun leifði honum soldið að ráða ferðinni. Ég var heldur ekkert að langa út í rokið. Þegar líður á morguninn vill hann fara á leikskólan og í dag var hann mættur um kl. 10. Það var rosalega fínt að koma heim og geta sett Sigurást líka í lúr. Nema hvað að hún var í einhverri lúraleysu, þannig að fríið var stutt. Hún er búin að borða lítið sem ekkert síðustu tvo sólahringa og er frekar vælin. Maður veit ekki hvort hún er vælin af því að hún er svöng eða þreytt. Borðar ekki af því að henni líður illa eða er þreytt. Sefur ekki af því að hún er svöng eða líður illa. Ég fékk hana í fyrsta skipti síðan hún var pínupons til að taka langan lúr inni, seinnipartinn í dag.

Annars gerðist ekkert markvert í dag. Ari var alsæll í leikskólanum, fyrir utan að hann borðaði ekkert í hádeginu. Hann og Sigurást voða samtaka í þessu. Nú bíð ég bara spennt eftir elsku knúsi kallinum mínum. Hlakka svo til að fá hann heim. Lífið er svo erfitt án hans. Þetta var eiginlega 1 degi of löng fjarvera. Þakka bara fyrir að ég er ekki að vinna.

Wednesday, September 17, 2008

Dagur 4: þetta er allt að koma

Þvílíka óveðrið í nótt. Sigurást vaknaði 23.50 þvílíkt hrædd við lætin. Mínútu eftir að hún vaknaði upp, þá fauk glugginn upp. Það tók svo tíma að svæfa hana aftur. Annars steinsvaf Ari Þröstur í gegnum þetta allt. Ég átti aðeins erfiðara með að festa svefn.

Ég bauð Ara í dag að ráða hvort hann færi í leikskólan. Og auðvitað eins og vanalega á morgnana þá vildi hann vera heima. Það gekk allt mjög hægt fyrir sig. Frekar afturábak heldur en áfram. Sigurást vildi ekkert borða, né taka brjóst. Það endaði á að ég gaf henni í rúminu og hún steinsofnaði, og þar með var rútína dagsins alveg fyrir bí, þar sem hún sefur alltaf stutt inni. Ari Þröstur vildi svo um kl. 10 fara í leikskólan. Sem betur fer. Enda rosalega gott að koma heim, setja Sigurást í lúr og slappa svo aðeins af. Anda pínu lítið. Borða í friði.

Við mæðgurnar fórum og sóttum Ara Þröst beint eftir kaffið. En við fórum svo öll í heimsókn til gömlu dagmömmu Ara Þrastar. En þeim var farið að langa að sjá Sigurást.

Vá hvað það var fínt að koma til þeirra. Ekki allt of margar breytingar og Zorro enn á lífi. Sigurást fílaði sig í botn og sjarmeraði þær upp úr skónum. Þær sáu strax að þarna var mikill fjörkálfur á ferð sem á eftir að láta hafa fyrir sér. Þær hlakka til að fá hana. Oh þetta verður svo gaman. Ég ætlaði ekkert að ná Ara Þresti aftur út. Honum fannst svo gaman að leika sér með barnadótið.

Eftir þessa heimsókn tók ég ákvörðun. Ég ákvað að taka helgarpabban á þetta og fara með börnin á McDonalds. Ari Þröstur hefur svo sjaldan fengið að fara inn og man ég varla eftir því hvenær við fórum síðast inn. Örugglega löngu fyrir óléttuna. Hann var svakalega ánægður með þessa ákvörðun. Enda búinn að væla lengi um þetta.

Ég slakaði svo ennþá meira á núna í kvöld og gaf eftir að hafa annað bíókvöld. Og hér sit ég og Ari enn og erum á leiðinni í háttin. Ætla sjálf að fara snemma að sofa. Vona að ég fái svefnleysið hans Ara ekki margfalt í hausinn.

Góða nótt.

Tuesday, September 16, 2008

Dagur 3: Bara tveir dagar eftir

Mér tókst að koma okkur út úr húsi á réttum tíma í morgun. Fórnaði sturtunni og morgunmat handa mér í staðinn :-)

Skoðunin var fín. Sigurást leiðrétti kúrfuna sína eftir fallið í síðust skoðun. Hún er núna 6.875 gr og 67 sm. Læknirinn var mjög hrifinn af henni eins og vanalega og gerði ráð fyrir að hún yrði fljót að fara að labba. Svo laumaði Sigurást að honum vinki þegar hann var að fara, sem vakti mikla lukku. Svo kom sprautan. Sigurást var sármóðguð, en gleymdi öllu á 3 sekúndum.

Sigurást sofnaði í bílnum og svaf svo allan tíman sem ég var að versla í matinn. En vaknaði um leið og við komum heim, eins og vanalega. Þannig að rútínan fór öll í steik. Hún var orðin soldið heit og pirruð og fékk stíl. Tók ágætan lúr. En ég eyddi óvart tímanum í tölvunni á meðan.

Við fórum svo snemma að sækja Ara Þröst, vildi vera á undan veðrinu. Ari Þröstur fór bara að grenja, og heimtaði að vera í klst. í viðbót, því hann átti eftir að fá að fara í salinn. Já ég er alveg ömurleg mamma að vilja sækja barnið snemma. En ég náði nú að múta honum heim. Það er ótrúlegt hvað hann verður oft fúll þegar ég sæki hann snemma. Svo er ég alltaf með samviskubit yfir því hvað hann er lengi í leikskólanum á daginn.

Ég ákvað að slaufa sundið, enda ekki ráðlegt að fara með lausamunina mína út í þessu ógeðslega veðri. Ég tók eitthvað af dótinu inn af svölunum, en skildi grillið og borðið úti. Dauðsé eftir því núna, þar sem lokið á grillinu er alltaf að skellast. Nenni ekki sko fyrir mitt litla líf út í þennan úrhelli. Vá hvað ég er fegin að hafa ekki farið í sundið. Vonandi verður grillið ennþá hérna á morgun.

Er mikið að velta því fyrir mér að bjóða Ara Þresti að vera heima á morgun. Nenni ekki að labba ef veðrið verður leiðinlegt, og ef ég ætla á bílnum þá þyrfti ég helst að koma honum áður en morgunmaturinn byrjar, svo ég nái að halda rútínunni hennar Sigurást.

Kemur allt í ljós á morgun.

Monday, September 15, 2008

Dagur 2: Blót, blót, blót og eitt ljótt orð til viðbótar

Þessi dagur gekk nú ekkert súper dúper vel. Hér var vaknað á sama tíma og áður. Ari aðeins seinna en fyrri daginn. Þegar ég og Sigurást vorum báðar komnar á fætur, var Ari enn að borða morgunmat og enn á náttfötunum. Hann vildi helst bara vera heima. Ég benti honum góðlega á að það væri ekkert gaman að vera heima, hann fengi ekki að hanga í tölvunni eða glápa á sjónvarpið. Sigurást yrði sofandi og ég að taka til. Eftir smá grenj og læti og nokkrir hlutir komnir í straff þá loksins bað hann um að fá að fara í leikskólan. Við löbbuðum af stað og vorum mætt í leikskólan kl. 10.30. Ari Þröstur var svo ánægður að þegar ég var búin að klæða hann í pollagallan þá rauk hann út í næsta poll og mátti ekkert vera að því að kveðja mig.

Því miður varð þetta svo allt til þess að Sigurást svaf stutt. Hún vaknaði við börnin og lætin í Ara Þresti. Sigurást var svo hundpirruð það sem eftir var af degi, og svaf stutta lúra. Nú er ekki hægt að kenna tanntöku um, þar sem fjórða tönnin fannst í dag og bólar ekki á fleirum. Reyndar tókst henni loks að kúka eitthvað að ráði eftir meira en viku stopp. En sennilega ekki nóg.

Ég var svo dauð uppgefin því nóttin var svo erfið. Sigurást svaf laust og var alltaf að vakna.

Ari var hress þegar hann kom heim. Hann rauk beint í tölvuna. Og ég leifði honum það bara til að fá frið frá allavega öðru barninu. Sem betur fer er matseldin ekkert flókin þegar við 3 eigum í hlut. Ég endaði svo á að setja Sigurást extra snemma í rúmið, þar sem hún var orðin svo þreytt. Ari var orðinn svo pirraður og þreyttur af öllu tölvuveseninu, að Sigurást vaknaði við lætin og endaði ég á að svæfa þau með herkjum, bæði upp í rúmi. Tók soldið langan tíma, því alltaf annað hvort þeirra þurfti að pípa eitthvað og vekja þá hitt.

Á morgun verður rosalegur dagur. Þarf að vera mætt með Sigurást kl. 9 í ungbarnaeftirlitið. Og svo er ungbarnasundið um kvöldið. Spurning samt hvernig sprautan fer í dúlluna.

Eina sem ég get verið stolt af eftir daginn, er að ég er búin að vaska allt upp og það er ekkert mikið drasl.

Sunday, September 14, 2008

Fyrsti dagur grasekkjunnar

Í nótt lagði Arnar af stað til Vínarborgar. Þetta verður fyrsta alvöru reynslan mín án hans.

Dagurinn byrjaði eins og vanalega. Sigurást vaknaði rétt fyrir 7 og Ari stuttu síðar. Ég skelti mér í sturtu, kom Sigurást á fætur, gaf morgunmat, og henti svo þeirri stuttu út í lúr. Náði að gera rosalega margt, þar sem Sigurást tók langan lúr. Upp úr kl. 3 komu mamma og pabbi í kaffi með afa. Ég var búin að baka pönsur og mamma kom með köku. Við áttum notarlega stund með afa. Hann var greinilega spenntastur fyrir að hitta Sigurást. Enda ljómar hann allur þegar hann sér hana. Hann var líka einn af fáum sem fengu bros frá henni þegar hún var sem verst af magakveisunni. Núna launaði hún honum heimsóknina með að spjalla soldið við hann. Hvað þeim fór á milli er enn óljóst.

Dagurinn gekk svo með eðlilegum hætti. Kvöldmatur, auka bíókvöld og svefn. Ari fékk að horfa á teiknimynd í staðinn fyrir að lesin yrði bók. Reyndar átti hann greinilega soldið erfitt í dag. Hann t.d. rústaði herberginu sínu, hann var alltaf að leika sér með dótið hennar Sigurástar og henda því út um allt (fær soldið af neikvæðri athygli út á það). Hann neitaði að vera með á mynd með afa og Sigurást og neitaði svo að kveðja gestina. En sá náttúrulega eftir dónaskapnum um leið og hurðin skelltist á eftir gestunum.

Stöðumat:
Bæði börnin sofnuð
Ekkert drasl nema í svefnherbergi Ara, en það verður vonandi lagað á morgun.
Uppþvottavélin malar
Þurrkarinn malar
Enginn blautur þvottur í þvottavélinni.
Enginn slasaður.
Búið að kveikja á kertum.

Nú ætla ég að njóta að horfa á sjónvarpsefni sem ég vel sjálf með fjarstýringunni. Njóta þess að fá að kynnast henni upp á nýtt :-)

Góða nótt

Thursday, September 04, 2008

Stóra þvottavélamálið

Nú er orðið þó nokkuð síðan ég bloggaði um bilun þvottavélarinnar okkar. Og örugglega margir búnir að spyrja sig hvernig þetta fór nú allt saman. Fyrirgefið biðina, en hún var óviðráðanleg.

Til upprifjunar þá bilaði vélin okkar í júní, nánar tiltekið 12. júní, daginn áður en við fórum í ófyrirsjáanlega ferð í húsafell (greinilega algjör óhappavika þar á ferð). Eftir ferðina fórum við að ferðast með þvott til mæðra okkar, sem var mjög þægilegt en samt frekar leiðinlegt. Reyndar mjög gaman að hitta þær svona oft, en að koma sér af stað var meira en að segja það. Við höfðum samband við húsasmiðjukallana, og þeir tilkynntu að þetta myndi taka nokkra daga svona viðgerð. En svo vorum við svo upptekin að við fórum ekkert með vélina fyrr en 2 vikum síðar.

Svo hófst biðin. Við biðum, og biðum og þegar þessir nokkrir dagar voru búnir að líða nokkrum sinnum og við búin að pirra mæður okkar í heilan mánuð, þá setti Arnar hnefan í borðið (ég er svo prúð, geri ekki soleiðis). Þá fengum við barbívélina eins og ég kalla hana, en hún er eins og lítil dúkkuvél og tekur 3 kg af þvotti. Og við biðum og biðum. Okkur var svo boðin stærri vél, því enn var bíð, en við biðum, þar sem við héldum að þetta væri alveg að koma. Enda átti viðgerðin að taka nokkra daga.

Í síðustu viku dró til tíðinda. Okkur var boðin ný vél fyrir þá gömlu. Nýrri típa af okkar gömlu. Þurftum ekki að borga krónu fyrir. Vélin kom í hús í gær 3. september, og er ég þokkalega ánægð eins og er. Allavega þegar ég sá fatahrúguna minnka í fyrsta skipti í langan tíma. Ég elska allavega Húsasmiðjuna eins og er og vona ég að sú ást haldi áfram að blómstra.

Svo þannig fór þvottavélamálið stóra. Spurning hvort maður geti fengið nýjan Renault Clio, ef sá gamli bilar???

Endir.