Konurugl

Tuesday, January 29, 2008

Svo stutt en samt ekki

Fór í nálastungu í dag. En þerapistinn minn sagði mér að það væri greinilega stutt í fæðingu hjá mér, þar sem yang púlsinn er orðinn svo sterkur. Hún sagði að ég mætti alveg mega eiga von á að eiga eftir 37 vikna meðgöngu. Hún spáir samt ennþá 26. eða 27. febrúar. Spurning hversu rétt það er. Finnst bara æðislegt að febrúar sé að koma. Bara 1 mánuður í mars.

Mér finnst líka æðislegt hvað heilsan er góð fyrir utan gliðnunina. Sef vel eins og er, enginn bjúgur, blóðþrýstingurinn frábær, járnið gott. Sennilega væri ég alltaf ólétt ef ég væri ekki með gliðnunina, sem er kannski bara blessun. Eina jákvæða sem ég sé við gliðnunina, er að það er talað um að konur sem fá hana, eigi auðveldara með að fæða börn. Það er jákvæði punkturinn sem ég horfi alltaf á þegar ég er mjög slæm.

kv. Elsa 34 vikur

Monday, January 28, 2008

Að opna augun

Ég kláraði á fyrsta orlofsdeginum mínum bókin "Þúsund bjartar sólir". Hún situr svo í mér. Ótrúlegt hvað maður verður allt í einu næmur fyrir því sem er að gerast í heiminum eftir að lesa svona bækur. Þegar maður sér allar þessar fréttir um átök úti í heimi þá sér maður ekki bara innantóma tölu á blaði heldur 800 feður, syni, dætur, eiginmenn, æskuástir, mæður, sem hafa fallið. Á bakvið bara 1 af 800 eru mörg brostin hjörtu. Voðalega hefur maður það ógeðslega gott.

Ég fór líka að lesa mér meira til um Afganistan. Finnst bara ótrúlegt að þar þrífist líf yfir höfuð. Þarna hefur nánast alltaf ríkt ófriður. Og landið hefur aðalega þjónað hernaðarlegum tilgangi. En þarna eru konur sem hugsa, dreyma og verða ástfangnar. Alveg eins og ég, nema ég hef getað gert allt sem mig langar til. Flestir þeirra drauma ná aldrei að verða neitt meira.

Svo í dag sá ég frétt um úr héraðinu Peshawar. Ég hefði ekki litið tvisvar á þessa frétt hér áður fyrr, en bara af því að það er talað um Peshawar í bókinni, þá langaði mig að vita hvað þar væri að gerast. 250 börn í gíslingu, 250 börn sem eiga foreldra sem eru nú að deyja úr ótta um börnin sín.

Afhverju leiðir maður svona hjá sér? Afhverju er svona mikil grimmd til í heiminum?

Thursday, January 24, 2008

Hætt að vinna

Úff hvað það er mikill léttir að hætta að vinna. Ekki það að mér finnist vinnan leiðinleg. Ég eiginlega áttaði mig ekki á því fyrr en í gær, þegar ég var búin að skila vottorðinu inn. Ég er búin að vera með verki upp á hvern einasta dag í nokkrar vikur. Sumir dagar eru góðir, meðan aðrir eru slæmir. Ég finn nánast alltaf fyrir verkjum þegar ég labba, ég finn ekki alltaf fyrir þegar ég sit, en versna því sem líður á. Grindagliðnun er svo lúmsk, að suma daga er maður svo fínn, og er rosalega duglegur og ekkert að passa sig, og svo næsta dag er maður alveg að drepast. Í gær þegar ég fór til læknisins var einn af góðu dögunum, var búin að vera að drepast í tvo daga áður. Og þegar góðu dagarnir koma, þá hugsa maður, djöfulsins aumingjaskapur, þarf ekkert að hætta að vinna. Finnst æðislegt að vera heima og ráða álaginu.

Maður fær líka samviskubit á hverjum degi núna í vinnunni. Það hafa allir brjálað að gera, og maður fær sig ekki til að skorast undan verkefnum, þó svo að ég ætlaði bara að vera í 50% starfi. Þannig að maður endar oft á að vinna lengur en maður þolir. Hefði viljað nota síðustu dagana til að skila betur af mér gömlu verkefnunum, en fékk ekki almennilega tækifæri til þess.

Svo þegar maður er að vinna þá er maður alveg búinn á því eftir nokkrar klukkustundir. Og þá getur maður ekki sinnt neinu öðru það sem eftir er dags. Heimilið er úr skorðum, og já barnið sem kemur í heiminn eftir ekki svo langan tíma, hefur bara ekkert komist að. Við eigum eftir að redda öllu. Erum búin að fá nokkrar flíkur, en þarf að komast í kassana hans Ara og byrja að flokka. Svo margt sem þarf að fara að huga að.

Annars kom skoðunin vel út í gær. Kollurinn er niðri en ekki skorðaður. Búin að bæta á mig 1,5 kílói á 3 vikum. Þannig að nú er ég búin að bæta á mig 5 kílóum á meðgöngunni, sem er 2 kílóum minna en á síðustu meðgöngu, á sama tíma. Þyngdist um 10 kíló á þeirri meðgöngu, sem mér finnst mjög fínt. Þetta hlýtur að fara að hrynja inn núna. Legbotninn er jafnhár og á síðustu meðgöngu, og ljósan spurði mig hvort ég hvort ég hefði verið svona nett síðast, og hvað Ari hefði verið stór. Á þessum upplýsingum, þá hefur hún ákveðið að það væri ekki ástæða til að senda mig í vaxtasónar, en hún gerði það síðast. Þannig að nú verðum við bara að bíða aðeins lengur eftir að sjá dúlluna okkar. Sem betur fer fórum við í 3D, því annars hefði ég örugglega grátbeðið um að fara í vaxtasónar.

jæja, ætla að halda áfram að slóra,
kv. Elsa

Monday, January 21, 2008

Varúð! Gúllassúpa!

Versti dagur ársins er í dag skv. þessari frétt á mbl

http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/01/21/versti_dagur_arsins_i_dag/

Ég held að þessi prófessor hafi samt ekki tekið gúllassúpu inn í jöfnuna sína. Enn ein vinnuvikan byrjaði í dag. Bara þessi venjulegi mánudagur. Allir seinir á fætur og svona. Maður reyndi svo að vinna eins og maður gat, og fattaði svo að það væri kominn hádegismatur þegar garnagaulið hófst. Þetta var bara venjulegur matmálstími, mikið skrafað. Í þetta skiptið eftir mat ákvað ég á ná mér í döðlur og vínber, en fékk í leiðinni að sína smá skautaspor í gúllassúpu þegar ég var að fara. Þarna lá ég killiflöt, að drepast úr athyglissýki. Velti mér smá upp úr súpunni, svona aðeins til að krydda þetta. Eina sem ég lærði af þessu að óléttar grindagliðnunarkonur eiga ekki að fara á skauta. Ég er helaum, vona að ég verði samt fljót að jafna mig.

Hvað er þetta með mig og þessi endalausu föll. Kannski féll borgarstjórnin bara með mér? Kannski féll gengi hlutabréfanna svona mikið út af mér?

Ég veit allavega að ég ætla bara að liggja undir sæng á sprengidag, öll matarboð afþökkuð.

kv. Elsa sem lá í súpunni

Wednesday, January 16, 2008

Veðsetning

Jæja aðdáendur nær og fjær, nú er opið fyrir veðsetningu. Þið megið endilega veðja á dagsetninguna sem krilla mun láta sjá sig. 9. mars er settur dagur. Gaman líka að sjá hverjir eru að fylgjast með.

Annars er ágætt að frétta. Er hálf farlama. Rann á svelli á mánudaginn, og fékk þetta rosa tog á lífbeinið. Var skárri á þriðjudag, en hef ekki mikið þol. Minnkaði strax við mig niður í 50%. Vona að ég geti verið 50% út mánuðinn, allt of margir lausir endar í vinnunni. En sem betur fer frábær og klár manneskja að taka við mínum verkefnum.

Fór í nálastungu áðan. Lítið sem hún gat gert þar sem ég er á viðkvæmum tímapunkti í meðgöngunni. Vildi ekki stinga í neina örvandi punkta, bara styrkjandi í þetta skipti. Vona að það hjálpi samt. Ég segi svo seinna hvaða dag hún heldur að barnið komið. Þarf að safna í smá pott fyrst.

Annars er dúllan mín pottþétt í höfuðstöðu. Ég er meiraðsegja farin að pæla hvort hún sé búin að skorða sig. Fannst allt í einu svo mikill þrýstingur niður í gær á lífbeinið. Það verður spennandi að heyra í næstu skoðun hvort ég hafi rétt fyrir mér, en ég vissi þetta síðast. En Ari skorðaði sig samt ekkert fyrr en eftir 36 vikur.

kv. Elsa og krilla, 8 vikur í áætlaðan dag.

Wednesday, January 09, 2008

2 mánuðir í Krillu

Komið að smá meðgöngubloggi. Í dag eru 2 mánuðir í settan dag. Maður á það reyndar til að velta fyrir sér, ef hún verði snemma í því eins og bróðirinn. Guð hvað það á eftir að vera erfitt ef ég geng fram yfir.

Ég fór í skoðun í síðustu viku. Járnið mitt er betra en á síðustu meðgöngu, en samt hef ég ekki verið að taka inn bætiefni í langan tíma. Blóðþrýstingurinn er ennþá betri, reyndar hækkuðu neðrimörkin úr 60 í 80 á milli skoðana, en ég var í 80 nánast alla síðustu meðgöngu. Svo er ég búin að þyngjast um 3 kíló á meðgöngunni, en það er aðeins minna en síðast. Krilla er alltaf með stelpu hjartslátt, ekki eins mikil óvissa hjá henni og Ara. En legbotninn mældist ekki nema 27 sem er 3 cm lægra en viðmiðið. En þetta nákvæmlega sama gerðist síðast, Ari lá þvert og teygði einhvernvegin á leginu. Krilla lá öll til hægri síðast. En ljósan mín vildi samt fá mig aftur í skoðun viku fyrr en annars. Ætli hún sendi mig ekki í vaxtasónar eins og hún gerði á síðustu meðgöngu.

Ég er farin að þreytast mikið, orðin frekar aum í grindinni, labba eins og mörgæs og vel bjúguð. Ég er sko farin að hlakka til að ljúka þessu. Ég er reyndar orðin svo sein að öllu. Ætti að vera búin að klára að senda tilkynninguna vegna fæðingarorlofs, en náði ekki að gera neitt í jólastússinu, og er rétt að komast í rútínu núna.

Annars eru helstu fréttirnar þær að Ari Þröstur var að byrja í aðlögun á Baugi. Ég er mjög ánægð með leikskólan, miklu betri aðstaða en á gamla leikskólanum. Og svo spillir ekki fyrir að ég þekki eina sem vinnur á deildinni hans Ara. Hann var mjög spenntur fyrst, en í gær kvartaði hann undan því að það vantaði Dag og Júlíu Nótt í leikskólan, en þau voru í gamla leikskólanum. Hann er sennilega að fatta að þetta verður ekki sama fólkið og í Hálsakoti.

kv. Elsa