Konurugl

Wednesday, October 31, 2007

Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna

Stórlaxarnir í Tröllakór urðu að litlum skrautfiskum í búri í gær. Dagurinn í gær var vægast sagt ekki góður við okkur. Vegna smá tæknilegra örðuleika, sem ég ætla ekki að tíunda hér, þá breyttist íbúðin á örskotsstundu í fiskabúr. 70% gólfflatarins var á floti í vatni. Sem betur fer var Arnar heima, en hann var einn með Ara og gat því ekki verið eins snöggur að ganga í málin. Ég lét skutla mér heim úr vinnunni, og þá var allt á floti. Lísa kom með og við hófumst handa við að þurrka gólf. Þrátt fyrir að vera ótryggð, komu sjóvámenn með sugu, viftur og þurrkara. Já það er rétt "ótryggð", og svo ekki nóg með það varð tjón á íbúðinni fyrir neðan. Við erum með allar tryggingar í heimi, nema húseigendatryggingar. Reyndar gæti þetta reddast. Skemmdirnar koma svo betur í ljós á næstu dögum. Krossum puttana að parketið, sem við lukum við að leggja á sunnudag, verði ekki mikið skemmt. Vonum að við þurfum ekki að rífa það upp.

Ég þoli samt ekki hvað manni líður skítlega útaf dauðum hlutum. Maður veit að þetta reddast, en samt er þetta svo mikið sjokk. Við vorum svo nálægt því að fara að koma okkur fyrir, en núna er heimilið eins og kjarnorkusprengju hafi verið hent hér inn. Ekki lagar ástandið, að það var allt í drasli fyrir og kassar út um allt. Erfiðasti hlutinn er svo fjárhagurinn. Þetta gerðist í gær. Einnig var bíllinn að koma úr viðgerð, og viðgerðin kostaði mange penge, og svo þingilýsing og stimpilgjöld á mánudag. Já við erum alveg komin í spennitreyju núna. En eins og vanalega þá hlýtur þetta að reddast ekki satt?

Æ það er ekki gaman að byrja svona í fyrstu íbúðinni sinni, en maður lærir af reynslunni ekki satt? Einhverntíma þurfa slæmu hlutirnir í lífinu að gerast, gott meðan þetta er svona léttvæglegt. Hefði samt verið fínt að eiga meiri sparnað. Ótrúlegt hvað maður verður bjartsýnni með hverri mínútinnu sem líður. Hefði ég skrifað fyrr í dag, þá hefði talvan drukknað í tárum. Vona bara að við komum heimilinu í ásættanlegt horf í dag.

kv. Elsa gullfiskur

Tuesday, October 23, 2007

20 vikur og sónar

Nú færist fjör í leikinn. Nú er ég hálfnuð. Í gær minnkaði ég vinnuna í 70%. Er hætt að vinna á miðvikudögum. Við erum með leiðinlegasta heimilislækni í heimi, og hefði ég hætt hjá honum, ef ég væri ekki svona ánægð með mæðraskoðunina. En ég var full sjálfsásökunar eftir að ég kom út. Maður hugsaði eiginlega, já það er sennilega ekkert að mér. Það liggur við að ég hafi verið hamingjusöm að hafa ekki getað gert húsverkin í gær vegna verkja. Ha, ha, ég er sko víst með grindargliðnun.

20 vikna sónar í dag. Þvílíkt fjör hjá snickers. Það voru bara allir útlimir á fullu. Öll líffæri litu vel út og næstum allir útlimir á sínum stað. Vantaði bara einn útlim, en þarna var engan pung og tippi að finna. Við foreldrarnir vorum sko samt ekki alveg viss, þar sem við áttum að geta séð einhver tvö hvít strik. Er ekki alveg viss um að ég hafi séð þau. Þarna er allavega mikil fimleikdrottning á ferð. Ótrúlegustu æfingar sem hún sýndi. Við verðum örugglega hlaupandi á eftir þessu barni.

kv. Elsa og hún snickers

Tuesday, October 16, 2007

Stjörnuhrap, snickers og ég

Flutningarnir eru liðnir. Skiluðum lyklunum af Brekkuselinu í gær, eftir að einhver pimp og mellurnar tvær komu til að þrífa íbúðina. Hún var sem betur fer hreinni en ég þorði að vona, eftir að ég sá þetta fólk í návígi.

Flutningarnir gengu hratt fyrir sig. Hlutirnir voru nánast rifnir úr höndunum á mér. En þetta gerðist á mettíma. Þó að flutningarnir hafi klárast fljótt, þá áttum við eftir að flytja ísskáp og borð til Adda og Lilju. Fara með rusl í Sorpu. Svo þurftum við að skila flutningabílnum. Ari var í skýjunum, því hann fékk að vera í flutningabílnum. Nú talar hann varla um annað. Við vorum komin aftur í hús um kvöldmataleiti. Svo fékk Ari að vígja baðkarið og beint upp í rúm. Þannig að fyrsti dagurinn var stuttur. Ari sefur hjá okkur, herbergið hans er allt í drasli, og stærsta vandamálið sem við glímum við, er að rúmið hans passaði ekki í herbergið. Þannig að það verður einhver tími þar til hann verður kominn þar inn.

Fyrst nóttin var yndisleg. Ég vaknaði klukkan fimm í pissuferð. Ég var sem betur fer ekki búin að setja neitt fyrir gluggana. En þarna lá ég og snickers, sem sparkaði kröftulega. Stjörnurnar skinu skært, og ég fékk að sjá eitt stykki stjörnuhrap. Alveg yndisleg stund. Eitt barn að sparka í mig að innan og hitt að utan.

Ég og Ari eyddum deginum saman í Tröllakór í gær. Ari var ekki alveg tilbúinn til að yfirgefa heimilið strax. Ég náði að gera eitthvað. Náði að setja mest allt eldhúsdótið í skápa. Nú langar mig bara í allt úr burstuðu stáli. Ætla að reyna að skipta um lit á hrærivélinni, og svo er kominn tími á að kaupa örbyglju0fn (poppofn). Enn er mikið drasl og mikið verk fyrir höndum. En þetta mun gerast í rólegheitum.

kv. Elsa tröllskessa.

Friday, October 12, 2007

2 vikur fram yfir

Nú eru tvær vikur síðan við ætluðum að vera flutt, miðað við plan sem við settum upp í september. Í dag held ég að ég viti nokkurnvegin hvernig konur sem eru gengnar framyfir líður. Fyrir utan öll óþægindin sem fylgir lokasprettinum. Ég er endalaust að svara spurningunum "Eruð þið flutt", "hvenær flytjið þið" "eruð þið búin að parketleggja". Þegar maður er búin að svara sömu spurningum 10 sinnum í röð, þá er það orðið soldið þreytandi.

Staðan:

Parketið er ekki alveg komið. Mikið af listum komið, á eftir að klára þá, og að parketleggja eitt barnaherbergi, og svo setja parket á sökkla. Eigum líka eftir að lakka korkflísarnar.

Við flytjum á sunnudag. Og nei ég er ekki búin að pakka öllu. Ég fæ frið til þess alla helgina, því mammsa er svo æðisleg að vilja passa fyrir okkur.

Meðgangan:
Nálastungurnar eða meðgöngusundið hefur verið að hjálpa. Hef ekki komist í sund í viku, og kemst loksins í nálar í dag.

Er byrjuð að fá brjóstsviða á kvöldin, þegar ég leggst upp í rúm. Þarf að fara í apótek að kaupa tuggutöflur.

Svo er búið að skrúfa frá krönunum. Er farin að leka. Alveg á sama tíma og í síðustu meðgöngu.

Snickers líður greinilega hrikalega vel, og er duglegt að minna á sig. Stundum óþarflega miklar hreyfingar í gangi. En einhvernvegin slökknar á öllum hugsunum, þegar hreyfingarnar byrjar. Ekki gaman þegar maður er að reyna að vera duglegur í vinnunni. En samt alltaf gott að vita að allt er í fína standi. Arnar náði að finna eina litla hreyfingu í gær. En snickers sofnar bara þegar pabbi kemur nálægt. Arnar er líka voða upptekinn þessa dagana að koma okkur fyrir í Tröllakórnum. Þannig að ég sé hann aðeins á morgnana, og með heppni á kvöldin.

bless, bless
Elsa í pappakassa

Wednesday, October 10, 2007

Arinn minn

Hann Ari er á svo fyndnum aldri núna. Hann var að reyna að finna litla barnið sparka, og var búin að dunda sér við það í smá stund. Svo fann hann hár af mér (en sumir vita að hann er svakalegur hárfíkill, og borðaði hár, fær sér stundum smakk núna), og byrjaði að reyna að troða því í naflan. "Ég er að gefa litla barninu að borða". Svo hélt hann svona áfram í smá stund, þar til hann gafst upp "Oh litla barnið vill ekki borða", þegar ekkert gekk.

Í dag fylgdist hann með sóparanum sópa laufblöðin á gangstígnum á bakvið hús. Bíllinn var búinn að fara nokkrar ferðir. Stuttu eftir að hann var farinn, kíkti Ari út aftur. "Vá, hann setti öll laufblöðin á trén" Þegar hann sá laufblöðin á trjánum.

Við flytjum væntanlega loksins um helgina.

Ég er komin með ágætis bumbu. Örugglega margir sem eru að pæla í því hvort ég sé orðin svona feit, eða kannski ólétt. Annars er þessi vika bara búin að vera þægileg. Ari reyndar veikur og búinn að vera algjör orkusuga í dag. En lá allan daginn á mánudaginn. Tók lúr með honum og voða næs.

Thursday, October 04, 2007

Fór í mæðraskoðun í gær, og allt bara í ljómandi. Hjartslátturinn var fínn stelpusláttur, eins og hún sagði en hún sagði það líka með Ara í 17. vikna sónar.

Ég lá grátandi heima á þriðjudag. Var alveg ónýt af verkjum í grindinni. Og þetta fer alveg með mann andlega. Það er ömurlegt að geta ekkert gert. Lá með kaldan ísbakstur allan daginn. Hjálpaði mikið. Ég fór svo í nálastungu á snyrtistofu Eyglóar. Og vá hvað þetta var allt annað. Hjá ljósmæðrunum fékk ég stungur til að minnka verkin. Eygló leitar að rót vandans, og læknar hann. Ég fékk stungur til að auka blóðflæði. Ég fékk stungur fyrir lifrina, legið og kynfærin. Einnig fékk ég stungu fyrir ógleði. Svo eitthvað meira. Þetta voru allt nýjir staðir. Hún bað mig svo um að kaupa fljótandi járn, því það fer betur í meltinguna. Ég var ótrúlega morgunhress, sem ég þakka stungunum fyrir, og fann ekkert fyrir ógleðinni. Ég fer aftur til hennar eftir viku. En hún segir s.s. að lifrin fóstri sinarnar, og því þarf lifrin og blóðflæðið að vera gott, til að sinarnar fái sitt.

Flutningunum seinkar alltaf. Parketið tekur sinn tíma, og soldið erfitt fyrir kallinn að vera að vinna svona mikið og líka að sinna þessu. Greyjið á svo mikið dekur skilið eftir þetta. Þarf að gera eitthvað æðislegt fyrir hann.

Við erum ótrúlega heppin með seljenduna. Þeir mættu í vikunni með slökkvitæki og sjúkraskápa fyrir allar íbúðir. Ég efast um að það sé standard. Glugginn í hjónaherberginu lak, og þeir komu innan hálftíma og voru búnir að laga hann. Þeir voru reyndar búnir að segja þegar við skrifuðum undir kaupsamninginn, að ef einhver galli kæmi í ljós, þá sendu þeir mann samdægurs að laga, en ég meina vá. Væri alveg til í að ættleiða þessa kalla.

kv. Elsa

Monday, October 01, 2007

Snickers

Jæja, bumbukrílið, bumbubúin, marsbúinn, litla dýrið er komið með vinnuheit. Ég kalla það "Snickers". Snickers er voða duglegt. Það hreyfir sig mjög mikið. Engin ró á þeim bænum.

Annars er ógleðin farin, og grindargliðnunin komin að fullu afli. Ég var nefnilega að mála. Og það fær enginn annar en ég að mála mitt heimili. Nú er ég orðin gömul kona. Veit ekki hvernig ég fer að þessa viku, en ég á að heita að vera að pakka niður.

Þessi læti eru eitthvað að fara illa í Ara Þröst, en hann er farinn að láta jafn illa, ef ekki verr og þegar við stóðum í brúðkaupsundirbúningnum. Vonandi jafnar hann sig fljótt. Ég sagði honum í dag að það væru fullt af krökkum í tröllakór sem hann getur leikið við. Hann varð soldið spenntur við að heyra það.

kv. Elsa og Snickers