Konurugl

Wednesday, February 28, 2007

Stress

Nú er ég komin með smá stresshnút. Félagi minn frá Bandaríkjunum hefur samband við mig svona einu sinni á ári, og í gær sendi hann póst. Ég sagði honum frá brúðkaupinu og honum langar að koma. Við erum að tala um mann sem er milljónamæringur í USD talið og konan hans er dóttir efrideildar þingmanns.

Hvað getur maður gert til að svona ríkt fólk, sem er vant posh veislum, skemmti sér vel í íslenski brúðkaupi. Ég hugsa að við verðum að virkja allt tónlista fólk í kringum okkur. Og biðja til góðs guðs um að fá ógeðslega gott veður. Verð bara að óska eftir rífandi stemmningu. Allir sem geta sungið og spilað á hljóðfæri eru beðnir um fara að æfa sig :-)

Ég ætla að stefna á léttleika framar flottheitum.

kv. Elsa posh

Saturday, February 10, 2007

Þetta er næstum því að verða gaman :-)

Loksins, loksins, fór ég að skoða kjóla. Reyndar hafði ég ekki hugmynd um að maður þyrfti að panta tíma til að skoða og máta. En á báðum stöðum voru þær sem áttu pantað ekki mættar eða mættu ekki. Fyrst fór ég í brúðarkjólaleigu Katrínar, þar sem ég bjóst við að úrvalið væri meira og svona. Ég fékk að skoða nokkra, og fann svo einn sem ég var alveg ánægð með. Við fórum svo í Brúðakjólaleigu Dóru. Þar var vel tekið á móti mér þrátt fyrir að eiga ekki pantaðan tíma. Við fórum ég, mamma og Lísa í einkamátunarherbergi. Hún tók fram nokkra kjóla sem hún var vissum að væru flottir á mér. Ég mátaði svo marga flotta kjóla og fékk afbragðs þjónustu. Ég endaði svo uppi með hausverk, því ég gat ekki gert upp á milli tveggja. Á leiðinni heim varð ég samt ákveðnari. Annar var frekar hefðbundinn og smellpassaði mér og var æðislega sætur. Hinn var óhefðbundnari og gerði mig flotta. Ég ákvað að velja kjólinn sem ég fæ kannski "vá hvað hún er flott" viðbrögð, he he, hégóminn alveg að fara með mann. En ég skemmti mér svo vel að máta, að ég fékk svona smá stelpuþing í mig. Mig er allt í einu farið að langa að skoða hringapúða, skó og eitthvað drasl :-)

Fyrir helgi vorum við svo að panta soldið sem mig langar að koma á óvart með. Er samt búin að segja tveimur manneskjum. Held kjafti um hverjar þær eru, svo enginn fari að pynta þær. En þetta er líka enn einn þátturinn þar sem veðrið skiptir öllu máli :-/

Tuesday, February 06, 2007

Hver á afmæli í dag???

Ég var rétt í þessu að hugsa, hmm á ekki einhver afmæli 6.feb. Hugs, hugs. Svo sló það allt í einu niður. Hundurinn minn Vaskur hefði orðið 16 ára í dag. He he það sem maður man allt í einu. Búinn að vera dauður í 8-9 ár.

Vaskurinn minn var frábærlega illa alinn hundur. Enda þegar 3 unglingar eru á heimili til að ala hund upp, getur varla margt gott komið út úr því. Hann undi sér best úti í garði. Hann fékk sjaldnast að labba, nema þegar krakkarnir í hverfinu komu og báðu um hann. Hann svaf uppí hjá okkur, en hann fékk þó ekki að vera í sófanum. Nema þá í fanginu á manni og svo stalst hann þegar við vorum ekki heima. Og svo borðaði hann afganga. Hann var æðislegur félagi. Settist á skólabækurnar manns ef hann þurfti athygli. Og svo hugsaði hann svo vel um mig þegar Krissa dó. Venjulega lá hann til fótanna, en þessar erfiðustu vikur lá hann í hálsakotinu hjá mér og sleikti tárin. Hann fylgdi mér hvert fótmál. Besti vinur ever.

Ef ég er að gleyma einhverjum öðrum, þá ertu væntanlega ekki eins frábær og hundurinn minn var!!!

Monday, February 05, 2007

Brúðkaupi frestað

Jæja, þar kom að því að ég væri með ástæðu til að fresta brúðkaupinu. Þarf að fara til Englands þessa helgi.

http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1251610

Reyndar er enn spurning að komast hjá því og bjóða Rowling í brúðkaupið, og óska eftir bókinni í brúðkaupsgjöf. Þemað í brúðkaupinu yrði Harry Potter. Ég held að minn æðislegi skreytingameistari eigi eftir að samþykkja það. Kannski breyti ég þessu bara í útgáfupartí.

Við erum búin að semja gestalistan. En ég á eftir að sýna Arnari nýjustu breytingarnar :-)
Vildi óska þess að við gætum bara boðið öllum, börnum og allt, haft eitthvað aktívití fyrir börnin og unglingana. En maður verður að setja mörkin einhverstaðar.

Vonandi kemst ég á laugardaginn í að skoða kjóla. Hvað með þessar kjólaleigur að vera ekki opnar á sunnudögum? Ég er alltaf upptekin á laugardögum og hef ekki tíma eftir vinnu.

Friday, February 02, 2007

6 ára í dag

Í dag er samband mitt og Arnars 6 ára. Mér finnst það mikið, þó öðrum finnst það lítið.

Fyrir 6 árum byrjaði þetta allt saman, reyndar með viku aðdraganda. Í drykkjuvímu, áttaði ég mig á því að kannski væri Arnar bara allt sem ég þráði. Skemmtilegur, góður vinur og skilur fimmaurabrandara og hlær af þeim. Í ölæði á Sportkaffi réðst ég svo á hann og kyssti. Dró hann svo heim með mér og skellti Ricky Martin á fóninn til að testa karlmennsku hans. En það var eins og við manninn mælt, kallinn hljóp skelfdur út og ætlaði sér sko ekki að hafa samband við þessa brjáluðu kvensu aftur.

Vikan leið svo, og við hittumst í skólanum og í undirbúningi Framadaga. Ég var ekki tilbúin til að gefa mig. Eftir kokteilboðið var farið á Astró, og var ekki séns að ég léti hann sleppa í þetta skiptið. Það tókst eftir að ég gerði fjandsamlega yfirtöku á gleraugum hans. Þetta kvöld var svo dansað fram á nótt á Gauknum undir tónum Lands og sona. Eftir þetta vorum við óaðskiljanleg, og margar eftirminnilegar stundir í tilhugalífinu. Mest man maður þó eftir Skaftahlíðinni, hamstrinum, göngum á milli Eggertsgötu og Skaftahlíðar, vídeóleigunni í lönguhlíð, saltstjörnum, taco, hrísgrjónapöddum.

Takk ástin mín fyrir allar góðu minningarnar sem þú hefur skapað með mér.

Thursday, February 01, 2007

Bræðsluvélin mín

Hann Ari minn er búinn að koma mikið á óvart upp á síðkastið. Hann er alltaf að bæta sig í orðaforða og er orðinn rosalega duglegur að halda uppi samræðum. Upp á síðkastið hefur það kannski farið soldið fyrir brjóstið á mér að hann kann að segja Kaupþing, reyndar tengir hann andlit John Cleese við Kaupþing, ekki merkið. Ég er að sjálfsögðu búin að reyna að kenna honum að segja Glitnir. Og jú hann segir alveg Glitnir, en tengir það ekki við neitt.

Eftir leikskóla þegar ég sæki Ara og við erum komin út í bíl, spyr ég iðulega hvort að það hefði ekki verið gaman í leikskólanum, og upp úr því spinnst smá samræða. Yfirleitt Guðný, Dorte og eitthvað bull.

Í gær var afskaplega erfiður vinnudagur. Ari og Arnar sóttu mig eftir vinnu, og var ég alveg búin á því. Þegar ég kem var Arnar augljóslega búinn að þjálfa þann litla. Ari sagði "mamma vinna Glitni." Voða sætt.

Á leiðinni heim segir Ari "mamma, mamma, Guðný, Dorte, leikgóli gaman" ég spyr, já var gaman í leikskólanum. Stuttu seinna spyr Ari "mamma? gaman Glitni?" Vá hvað ég bráðnaði algjörlega. Frumburðurinn að spurja hvernig dagurinn minn hefði verið :-) Ég reyndar sagði honum að það hefði verið gaman. Efast um að hann hefði skilið það ef ég hefði sagt honum að þetta hefði verið einn mesti böggdagurinn sem ég hefði upplifað.