Konurugl

Monday, August 25, 2008

Bless, bless sumar

Nú er haustið komið. Menningarnótt lokið, ólympíuleikunum lokið, skólarnir byrjaðir og grenjandi rigning. Aðal haustboðinn á þessu heimili er svo afmælið hans Ara Þrastar.

Sumarið var mjög gott og ótrúlega skemmtilegt. Áttum frábærar stundir saman sem fjölskylda. Nú fer allt að komast í rútínu. Það verður bara ég og Sigurást heima næstu mánuðina. Vonandi verður veðrið ljúft í vetur. Ég kvíði smá vetrinum. Í minningunni var ég og Ari Þröstur alltaf saman í kjallaraholunni í myrkri. Mér fannst vera myrkur allan veturinn. Held reyndar að upplifunin verði önnur hér, þar sem dagsbirtan kemst auðveldlega inn.

Mér finnst eins og tíminn sé miklu fljótari að líða núna, heldur en þegar ég var með Ara Þröst heima. Í minningunni var hann líka kominn í miklu betri rútínu. Enda svaf hann alltaf svo mikið. Sigurást má ekkert vera að því að sofa á daginn. En það kemur vonandi.

kv. Elsa

Wednesday, August 13, 2008

5 mánaða skvísa

Nú er Sigurást orðin 5 mánaða og allt að gerast hjá henni. Hún fékk sína fyrstu tönn á sunnudaginn og sýnist vera stutt í aðra tönnslu. Allavega er hún búin að vera álíka ergileg og hún var áður en hún fékk þá fyrstu.

Í dag fór hún svo í 5 mánaða skoðun og sprautu. Fjólu leist vel á hana. Fannst hún vera dugleg að sitja og sagði mér að hafa engar áhyggjur af því að hún myndi ekki velta sér, því sum börn gera það aldrei. Sigurást sýndi hennir líka magaæfingarnar sínar, en þegar maður leggur hana niður þá heldur hún alltaf höfðinu og fótunum uppi. Of mikil prinsessa til að liggja. Hún var 6.340 gr og 65,5 sm. Sem er ekki alveg nógu gott. Og Fjóla greip mjög vel í að ég færi nú fljótlega að gefa graut. Henni fannst Sigurást vera líka með svo góðar fínhreyfingar, enda farin að færa dót á milli handa og svona, þannig að hún taldi að það væri stutt í að hún fari að geta týnt upp smádót.

Annars er Sigurást dottin úr allri rútínu. Sefur í mesta lagi 30 mínútna lúra. En fer alltaf á sama tíma að sofa á kvöldin. Nema hvað hún er voða dugleg að vakna milli 6-7 á morgnana. Sem er ekkert voðalega vinsælt.

Í gær komu allavega 13 mæður með 13 kríli í heimsókn til mín. Allt börn fædd í mars. Þvílíkt stuð. Alltaf gaman að hitta þessar skvísur og sjá hin börnin. Sigurást er reyndar kominn með fínan kærasta í hópnum, henni líkar allavega mjög vel við tengdamömmuna.

Nú er fæðingarorlofið hálfnað. Eftir 5 mánuði verð ég farin að tala við fullorðið fólk, um eitthvað annað en bleiur og uppeldi. Ég er reyndar ekkert orðin leið ennþá. Enda er Arnar búinn að vera með mér 3 mánuði af 5. Spurning hvort ég verði ekki orðin drulluleið eftir mánuð.

Smá Sigurástblogg í tilefni af 5 mánaða afmælinu.

Saturday, August 09, 2008

Áfallaröskun?

Greyið Ari Þröstur hefur ekki jafnað sig andlega á brunanum í sumarbústaðnum. Hann forðast eldhús eins og heitan eldinn, þegar búið er að kveikja á ofni eða hellu. Hann spyr yðulega áður en hann fer inn í eldhús hvort það sé kveikt á ofninum.

Í sumarbústaðarferð um daginn ætlaði ég að láta hann sækja dót sem hann kastaði, en þar var Rúna að elda. Ari Þröstur byrjaði að iða og varð mjög órólegur þegar ég ætlaði að leiða hann þangað. Ég spurði hann hvað var að og þá vildi hann ekki fara því það væri kveikt á hellunum.

Í síðustu viku fór ég með hann í bíó á Wallie. Rosa fín mynd og Ari Þröstur skemmti sér. Wallie fann kveikjara og þegar kveikt var á honum fór Ari Þröstu að iða í sætinu og varð mjög órólegur. Núna er ég að horfa á Ratatouille með honum. Ég þurfti að semja við hann um að horfa á þessa mynd, en ástæðan kom svo í ljós. Það er mikið um eld í þeirri mynd. Og þegar kemur að atriðum þar sem eldur er lokar Ari Þröstur augunum og iðar.

Ótrúlegt hvað svona áfall hefur mikil áhrif á lítinn mann. Sárin eru löngu gróin, en ekki sálin.