Ég er rosalega miður mín þessa dagana út af uppsögnunum í Glitni. Átti ekki von á að þetta hefði svona mikil áhrif á mig, þar sem ég er heima. Á hverjum degi frétti ég af fleiri nöfnum. Ég er svo reið og sár, því flest af þessu fólki sem ég heyri af er virkilega duglegt og klárt fólk. Ég fyllist líka samviskubiti af því að hafa enn vinnuna, gagnvart þessu fólki.
Kannski hefði þetta ekki eins mikil áhrif, ef ég hefði ekki verið í þessari stöðu sjálf að lenda í hópuppsögn. Reyndar var mín staða óvenjuleg að því leiti að ég var ólétt. En sem betur fer reddaðist það og ég fékk að vinna út nánast allt óléttu tímabilið. Ég var rosalega sár yfir því að lenda í þessu, afhverju ég en ekki einhver annar. Ég hlaut að vera lélegur starfsmaður. Ég var viss um að ég fengi aldrei vinnu aftur, sérstaklega verandi komin í mömmupakkan. Versta var líka að ég er enn viss um að ég hefði verið endurráðin mjög fljótlega hefði ég ekki verið ólétt og á leið í fæðingarorlof.
Þetta reyndist þó það besta sem hafði nokkurntíma gerst í mínu lífi, og er ég rosalega þakklát í dag að einhver hafði vitið fyrir mér. Ég hékk of lengi of óánægð í gömlu vinnunni. Í staðinn fékk ég bestu vinnu í heimi, með frábæru fólki. En því miður er hluti af þessu frábæra fólki að hverfa frá vinnu. Ég vildi bara óska þess að ég gæti fengið að knúsa allt þetta fólk og sagt þeim að líta á þetta sem tækifæri og að öllum líkindum mun þetta verða besta breytingin í lífi þeirra. Ég heyrði einmitt rætt við mann í útvarpinu fyrir nokkrum árum þar sem hann talaði að svona áföll opnuðu yfirleitt nýjar dyr, dyr sem hefði verið lokuð annars. Hann sagðist að í öllum tilvikum sem hann þekkti til var að fólk var ánægðara eftir að gömlu dyrnar lokuðust. Og þetta átti svo sannarlega við í mínu tilfelli og held ég hjá öllum sem ég þekki.
Annars er ég fegin að lenda ekki í uppsögnunum núna. Hefði alveg eyðilagt mig að lenda í þessu aftur. Frétti að einhverjar sem voru í fæðingarorlofum lentu í uppsögnum. Ég sé samt fram á að byrja alveg á nýjum vinnustað þegar ég kem úr fæðingarorlofinu. Þannig séð. Sama fyrirtæki, bara búið að leggja niður deildina mína. Í nýju deildinni minni eru held ég bara 2 eftir úr gömlu. Það eru búnar að vera svo miklar hræringar síðan í maí í fyrra, að ég er bara orðin algjörlega ringluð. Vonandi verður kominn einhver stöðuleiki þegar ég kem aftur.