Konurugl

Saturday, May 31, 2008

Araknús

Mamma: Ari langar þig að knúsa Sigurást?
Ari: Nei, hún er með svo lítil eyru
Mamma: Jahá.... hmm, afhverju geturðu ekki knúsað hana fyrst hún er með lítil eyru?
Ari: af því að ég er með stór eyru

Foreldrarnir komust að því að knúsin hjá Aranum okkar snúast um að láta eyrun snertast :-) Mjög lógískt þegar maður pælir í því.

Tuesday, May 20, 2008

Skakka-Ásta

Sigurást Júlía er hægrisinnuð. Í síðustu skoðun var mikil áhersla lögð á að við foreldrarnir myndum leiðrétta þennan vanda. Mér skilst að það sé best að gera þetta áður en þau fá kosningarétt, en helst fyrir 3 mánaða.

Ég og litla j fórum í höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun. Þar voru hendur lagðar á hana og snúið upp á hana. Hún var ekki eins mikið J eftir þá meðferð. Henni leið reyndar mjög vel. Kveinkaði sér eitthvað smá, en endaði á að sofna í höndunum á konunni. Við eigum svo að koma aftur eftir rúma viku, því ekki tókst að sparka þessum hægrivanda úr með einni meðferð. Kannski erfiðara þar sem pabbinn er haldinn sömu þráhyggju.

Friday, May 16, 2008

Ég er rosalega miður mín þessa dagana út af uppsögnunum í Glitni. Átti ekki von á að þetta hefði svona mikil áhrif á mig, þar sem ég er heima. Á hverjum degi frétti ég af fleiri nöfnum. Ég er svo reið og sár, því flest af þessu fólki sem ég heyri af er virkilega duglegt og klárt fólk. Ég fyllist líka samviskubiti af því að hafa enn vinnuna, gagnvart þessu fólki.

Kannski hefði þetta ekki eins mikil áhrif, ef ég hefði ekki verið í þessari stöðu sjálf að lenda í hópuppsögn. Reyndar var mín staða óvenjuleg að því leiti að ég var ólétt. En sem betur fer reddaðist það og ég fékk að vinna út nánast allt óléttu tímabilið. Ég var rosalega sár yfir því að lenda í þessu, afhverju ég en ekki einhver annar. Ég hlaut að vera lélegur starfsmaður. Ég var viss um að ég fengi aldrei vinnu aftur, sérstaklega verandi komin í mömmupakkan. Versta var líka að ég er enn viss um að ég hefði verið endurráðin mjög fljótlega hefði ég ekki verið ólétt og á leið í fæðingarorlof.

Þetta reyndist þó það besta sem hafði nokkurntíma gerst í mínu lífi, og er ég rosalega þakklát í dag að einhver hafði vitið fyrir mér. Ég hékk of lengi of óánægð í gömlu vinnunni. Í staðinn fékk ég bestu vinnu í heimi, með frábæru fólki. En því miður er hluti af þessu frábæra fólki að hverfa frá vinnu. Ég vildi bara óska þess að ég gæti fengið að knúsa allt þetta fólk og sagt þeim að líta á þetta sem tækifæri og að öllum líkindum mun þetta verða besta breytingin í lífi þeirra. Ég heyrði einmitt rætt við mann í útvarpinu fyrir nokkrum árum þar sem hann talaði að svona áföll opnuðu yfirleitt nýjar dyr, dyr sem hefði verið lokuð annars. Hann sagðist að í öllum tilvikum sem hann þekkti til var að fólk var ánægðara eftir að gömlu dyrnar lokuðust. Og þetta átti svo sannarlega við í mínu tilfelli og held ég hjá öllum sem ég þekki.

Annars er ég fegin að lenda ekki í uppsögnunum núna. Hefði alveg eyðilagt mig að lenda í þessu aftur. Frétti að einhverjar sem voru í fæðingarorlofum lentu í uppsögnum. Ég sé samt fram á að byrja alveg á nýjum vinnustað þegar ég kem úr fæðingarorlofinu. Þannig séð. Sama fyrirtæki, bara búið að leggja niður deildina mína. Í nýju deildinni minni eru held ég bara 2 eftir úr gömlu. Það eru búnar að vera svo miklar hræringar síðan í maí í fyrra, að ég er bara orðin algjörlega ringluð. Vonandi verður kominn einhver stöðuleiki þegar ég kem aftur.

Thursday, May 15, 2008

Tattú

Ari: Mamma ert þú með svona tattú
Ég: já
Ari: hvað þýðir þetta?
Ég: veit það ekki
Ari: konan skrifaði á mömmu. Ég ætla að fá svona spiderman og superman og skjaldböku tattú og konan ætlar að skrifa á mig.
Ég: En Ari þú mátt ekki fá tattú fyrr en þú ert orðinn 18 ára.
Ari: nei mamma ég verð að fá tattú þegar ég er 3ja ára.

Friday, May 09, 2008

Þessi endalausu veikindi :-(

Ég og Sigurást fengum kvefpest um síðustu helgi. Skelfilegt að horfa upp á svona pínulítið kríli með kvef. Ari varð í fyrsta skipti veikur rétt um 1 árs aldurinn. Þannig að þetta eru smá viðbrigði. Við erum allar að koma til núna. Versta er að góða rútínan sem hún var með er fokin út í vindin. Gat verið viss um nánast frá fæðingu að hún væri sofnuð kl. 22 á kvöldin. Hún svaf líka alltaf í 5 tíma í fyrstu lotu, en hefur upp á síðkastið sofið í 6-7 tíma, sem er bara guðsgjöf. Vona bara að það haldist. En núna sofnar hún ekki fyrr en um 23.20 til að vera nákvæm.

Sigurást Júlía fór í fyrsta skipti í sund í gær. Hún var að byrja í sundskólanum hennar Sóleyjar. Hún er yngsta barnið í hópnum, en Ari var elstur þegar hann byrjaði 4 mánaða. Þannig að hún er algjört kríl þarna. Og þvílíka dúllan í bleikum blómasundbol. Hún var miklu duglegri en ég þorði að búast við. Átti vona á einhverju við drama frá dramadrottningunni, en nei hún var bara dugleg að deila með öðrum brosum og hlátri. Var reyndar eitthvað óörugg í lokin, ekkert sem brjóstin mín geta ekki bjargað.

Ég gleymi mér alveg í brosunum hennar Sigurást. Hún hlær og brosir alveg þvílíkt mikið. Ari Þröstur var sparari á þetta. Svo finnst mér ótrúlega fyndið hvað henni kitlar mikið.

jæja verð að sinna litlu..