Konurugl

Saturday, October 21, 2006

Tékklistinn minn

Jæja, nú er í tísku að fara eftir tékklistum af netinu til að hjálpa til við undirbúning brúðkaups. En svo fann ég mér einn tékklista til að fara eftir til að hjónabandið verði farsælt. Hér er fyrsti hluti tékklistans.

Hvenær mega konur ganga í hjónaband?

Giftingaraldur kvenna er með lögum ákveðinn, en eg vil benda þér á, að aldurinn er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að ungu hjónin hafi eitthvað fyrir sig að leggja til að bíta og brenna, þvi að sagt er, að ástin flýi oft fátæktina og baslið.

Gaktu því eigi í hjónaband fyr en unnusti þinn hefir komist að stöðu með lífvænlegum tekjum og aflað þess fjár til bússtofnunarinnar, sem þið þurfið til þess að geta byrjað búskapinn skuldlaus.

"Maddam Tobba 1922"

Ef þið fáið upplýsingar um að hjónabandsvígslunni sé aflýst, þá vitið þið allavega afhverju :-) En til að minnka óvissuna tel mig þónokkuð vissa um að unnusti minn hafi komist að stöðu með lífvænlegum tekjum. Spurning samt hvort það sé of seint að pæla í þessu þar sem bústofnunin er þegar hafin. Telst ég þá líklega lausalætiskona!

kv. Elsa

Thursday, October 19, 2006

Veisluvandi og ráðningar aðstoðarhellna

Smá uppfærsla hér. Enginn veislusalur kominn. Náðum fyrst í Indriðastaði. Líklega búið að bóka hjá þeim á deginum okkar. Sem er allt í lagi, þar sem þetta er frekar löng keyrsla. Náði ekki í Tungufólkið vegna Skessubrunns fyrr en í dag. Þau eru í Bandaríkjunum. Skessubrunnur er lokaður í óákveðin tíma og vildi hún ekki taka neina pöntunn, fyrr en ákvörðun liggur fyrir. Á eftir að skoða 3 staði í viðbót. Náði ekki í manneskjuna sem sér um Miðgarð, en skilst að hann sé mjög mikið pantaður næsta sumar. 2007 er víst hrottalegt brúðkaupsár.

Ég réði yfirskreytingameistara á dögunum. En Bexið mitt er snillingur í öllu dúlleríi. Svið sem ég þori varla að hætta mér inná. Best að maður setji henni budget áður en hún byrjar að eyða *svitn*. Ég var líka búin að ráða mér hárgreiðslukonu. Ég talaði við Pálu mína í sumar, og ætlar hún að taka daginn frá. Hún er yndislegust. Er byrjuð að láta mig safna hári. Klippti reyndar á mig topp núna síðast, en sagði að hann yrði orðinn nógu síður fyrir brúðkaupið. Annað hvort er það rétt, eða hún hefur ekki trú á að okkur takist þetta :-)

Svo núna fyrir klukkustund réð ég mér sérlega fína aðstoðarhellu. Uppflettiritið mitt og símaskráin Þórey. Besti upplýsingabrunnur í heimi. Og ekki skaðar að hún þekkir alla sveitina. Æ lov jú görl.

Svona er staðan í dag. Veit að það verður skemmtilegt sama hvar veislan verður. Vona bara að þetta verði ekki svona "Worst week of my life" dæmi.

Þangað til næst,
Elsa

Monday, October 09, 2006

Kirkjan og presturinn

Nú er loksins komin niðurstaða í hitamál síðustu daga. Búið er að ákveða stund og stað fyrir hjónavígsluna. Og í morgun var pantaður prestur að nafni Kristinn Jens og kirkjan að Leirá. Kristján sagði að Leirárkirkja væri mjög vinsæl fyrir brúðkaup næsta sumar.

Við ákváðum að ef við bjóðum of mikið af fólki fyrir kirkjuna, þá ætlum við að reyna að hafa hjónavígsluna út á túni. Pinnahælar bannaðir. Ef veðurguðirnir verða ekki í stuði fyrir soleiðis, þá reynum við bara að pakka í kirkjuna. Þröngt mega sáttir sitja. Við allavega sjáum ekki fært að skera niður gestalistan. Munum samt þurfa að setja mörkin einhversstaðar. Vildi bara að allir gætu samfagnað með okkur. En fyrir mér skiptir vígslan mestu máli, og vil ég að sem flestir verði viðstaddir af þeim sem mér þykir vænt um.

Næsta mál á dagsskrá er að skoða veisluaðstöður. Í gær vorum við ákveðin hvar veislan yrði haldin, en í dag langar mig að skoða 4 staði og sjá hverjir hafa heppilegustu aðstöðuna. Þetta eru Hlaðir, Fannahlíð, Miðgarður og Indriðastaðir (hlaða sem hefur verið breytt í veislusal). Svo er bara spurning hvað er laust á þessum degi.

kveðja,
verðandi frú Elsa

Monday, October 02, 2006

Besti draumurinn

Erfitt að vakna í morgun, en mig dreymdi samt æðislegan draum. Ég hitti Bono í eigin persónu. Hann var æðislegur, gaf mér léttan koss og bauð mér svo að liggja í fanginu á honum í Lazyboy. Mér leið svo vel. Þetta var guðdómleg upplifun. "Elsku guð, þó ég eigi ekki að eiga aðra guði, má ég samt halda Bono? Amen" Ég vaknaði svo við grátur í Ara. Með bros á vör gaf ég frumburðinum snuðið sitt.

Versti draumurinn var í síðustu viku. Hrollur. Mig dreymdi að ég væri á ferðalagi í Danmörku. Ég fór á salernis aðstöðu í einhverri byggingu, nema þegar ég kom fram greip skelfing um sig, og í fangið á mér hljóp alblóðugur maður. Hann var með sýkingu eða hafði orðið fyrir eiturefnum. Eftir stutta stund varð mér ljóst að ég myndi deyja. Fyrir utan bygginguna var Ari Þröstur og Arnar og ég vissi að ég gæti aldrei fengið að snerta þá aftur. Aldrei aftur verið umvafin löngum örmum Ara. Ég vaknaði alveg miður mín og grét í sturtunni.

Nóg af draumum, eins og þið sjáið þá eru þeir meira spennandi en líf mitt þessa dagana.

Fór á laugardaginn á tónleika með Magna og Dilönu. Þetta voru náttúrulega Magnaðir tónleikar. Dilana er rokkgyðja. Fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um flutninginn á Roxanne. Vá flottasti flutningur ever. Reyndar voru þetta allt lög sem umbreyttu mér í gæs. Búin að vera að plokka mig síðan. Kemestríið á milli þeirra var líka æði. Þau grínuðust út í eitt. Alveg ógleymanlegt.

Ég get ekki beðið eftir desembertónleikunum. Verð bara að muna að kaupa risastóran smekk, því ég á eftir að slefa svo mikið yfir Toby og ástralska hreimnum hans.

Jæja nóg af mér í bili
Elsa Bonosdóttir