Konurugl

Wednesday, June 20, 2007

Síðasti dagurinn -síðasti tugur gerður upp

Í dag er síðasti dagurinn sem ég er tuttugu og eitthvað. Ég kveð 2. áratuginn ánægð með árangurinn. Ég minnist líka þess hvað mér fannst ég vera voðalega gömul þegar ég var 20 ára. Ég man að þegar ég fór á Oasis tónleika í Barcelona, að við ákváðum að troða okkur fremst við sviðið, en okkur þótti samt við vera aðeins of gamlar fyrir soleiðis. Nú myndi ég ekkert kippa mér upp við að sjá 20 ára gamlar píur fremst við sviðið á tónleikum.

Ég var að hlusta á útvarpið um daginn, þar sem auglýst var 20 ára aldurstakmark á sveitaball. Fyrsta hugsunin mín var "en sniðugt, þetta verður þá bara fólk á mínum aldri". Já ég er sko sannarlega ennþá 20 ára í anda. Ég er sem betur fer búin að græða svo mikla lífsreynslu á síðustu 10 árum, sem ég átti ekki þá.

Ég hélt upp á 20 ára afmælið með partíi heima, og fékk svo rútu til að ferja fólkið á Hreðavatnsskála á sveitaball. Geðveikt afmæli. Nokkrum mánuðum seinna fór ég í dvöl mína í Barcelona, sem varði í heila 10 mánuði. Lærði helling og lifði helling. Eftir heimkomu fór ég að vinna í "banka sem ég þori ekki að nefna á nafn". Því miður þá um sumarið misstum við vinkonurnar hana Krissu. Það var erfitt að sjá eftir henni, og geta ekki hringt í hana til að spjalla. En hún kenndi manni að lifa lífinu og njóta þess. Haustið eftir heimkomu hófst svo háskólagangan. Þar hellti ég mér út í félagslífið. Ég fór ári síðar í stjórn AIESEC, og fór á ráðstefnu í Túnis og Suður-Afríku. Þessar ráðstefnur munu lifa með mér alla ævi. Það er ekkert sérstakara að hitta fólk frá 84 löndum, og allir lifðu í sátt og samlyndi. Á síðustu önninni minni í háskólanum hóf ég svo að gera hælana mína græna fyrir einum háskólafélaga, enda ekki seinna vænna. Þar eignaðist ég frábæran kærasta, sem stendur með mér í einu og öllu. Mér þótti hann heldur of abbó fyrst, enda mikil daðurkerling á ferð. En sem betur fer hefur það allt blessast. Ég útskrifaðist 2001 og hóf vinnu hjá LSH sem virtist vera spennandi til að byrja með, en eftir 1 ár byrjaði að halla undan fæti. Ég ákvað í samvinnu með Arnari að fjölga mannkyninu, og hætta þannig hjá LSH. En þeir urðu nú á undan pungarnir, og sögðu mér upp í byrjun þungunar. En það fór sem betur fer, betur en á horfðist. Við eignuðumst svo Ara Þröst, sem er líf okkar og yndi. Í framhaldi af þeirri blessun fékk ég mjög spennandi atvinnutilboð hjá "Íslandsbanka", ég er þar enn og er ennþá ánægð. Besti vinnustaður í heimi. Þar sem Arnar var svo hrifin af bankapíunni, ákvað hann að skella sér á skeljarnar þegar við vorum í heimsókn hjá Lísu á Frakklandi, sumarið 2005. Við skrifuðum svo undir okkar fyrsta kaupsamning í desember síðastliðinn. Þannig að nú er líf okkar óðum að breytast, og hlakka ég til að takast á við næsta tug.

Njótið lífsins,

Elsa sem er ennþá bara 29 ára.

1 Comments:

  • Til hamingju með afmælið !!

    Í tilefni dagsins fór Ásta í sitt fyrsta og eina próf í Ástralíu og auðvitað gekk það vel enda svo frábær dagur :)

    Vonandi áttu frábæran dag, færð góða afmælisköku og einhverjar skemmtilegar gjafir

    Afmæliskveðjur frá köldu Ástralíu
    Ásta og Skúli

    By Anonymous Anonymous, At 6:12 AM  

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]



<< Home