Nú ætla ég að taka smá yfirferð um árið sem er liðið. Ég vona að ég gleymi engu, enda margt búið að gerast á árinu.
Arnar byrjaði í nýrri vinnu í upphafi árs. Við vissum eiginlega ekkert út í hvað hann var að fara. En honum hefur farnast vel í starfinu og er starfið alveg sniðið að kallinum. Spurning hvort þetta verði ekki köllun hans.
Í janúar varð kallinn minn 30 ára og héldum við heljarinnar veislu sem mun seint gleymast. Við reystum tjald í garðinum og vorum með slatta af veigum. Við buðum 40 manns í litlu íbúðina okkar, og komu eiginlega allir sem voru boðnir. Partýið stóð frá kl.21-7 um morguninn. Þetta var æðisgengið, og örlaði ekki fyrir neinni þreytu eða ofurölvun hjá ellikellingu.
Ég bauð svo mínum heitt elskaða í sörpræs ferð til London, en kallinn hafði aldrei komið þangað. Ég bauð honum á Asia de Cuba að borða og í leikhús. Svo túristuðumst við helling. Alveg ógleymanleg ferð.
Ari fótbrotnaði svo í lok janúar. Snúningsbrot við öklabeinið. Hann var fljótur að aðlagast gipsinu og var ekkert að pirra sig á því. Alltaf jafn góður strákur.
Ég fékk heiftarlega flensu í febrúar. Rauk upp í 41,9 fyrstu nóttina, og var svo í 40 stiga móki næstu daga. Fór til læknis á fjórðadegi og fékk að vita að ég væri með flensuna og of seint að fá flensulyf, þarf sem þetta yrði farið eftir tvo þrjá daga. Næstu fimm daga var ég enn með 40 stiga hita og næstu viku var ég komin í 38-39. 2 vikur í rúmminu. Mig grunaði á tímabili að ég hafi verið með lungnabólgu, en þar sem ég þekki það ekki þá ætla ég ekkert að rengja þennan lækni.
Í febrúar hófst svo mikill niðurskurður. Ég losaði mig við 10 kíló á 3 mánuðum (2 kíló í veikindum). Ég fékk svo nóg af aðhaldinu í maí, og hef bætt 5 kílóum á mig síðan þá.
Við fórum í foreldraleyfi í mars og fórum á hótel í Reykholti. Nutum þess að liggja í nuddstól og heitum potti, og hvíldarherbergi. Alveg yndisleg upplifun.
Við fórum í tvær sumarbústaðarferðir. Eina í apríl með Magga, Millu og Sól. Það var æðislegt, þar sem Sól og Ari náðu vel saman og foreldrarnir gátu slappað vel af. Við fórum svo aftur í 5 daga yfir hvítasunnuna, en bara ein í þetta skiptið. Leiðindaveður allan tíman og Ari ekki eins duglegur að dunda sér einn.
Ég átti svo æðislegt afmæli í júní, þar sem Arnar er alltaf svo duglegur að koma mér á óvart.
Ari hætti hjá dagmömmu í júlí, og áttu foreldrarnir mjög erfitt með sig. Erfitt að sleppa takinu af svo góðri dagmömmu. Við tókum öll frí og hentumst til danmerkur. Hittum Kára og Kristínu og áttum alveg yndislega stund. Heimsóttum líka Köben sem var allt í lagi, hefði verið betra að vera barnlaus þar.
Ari byrjaði í besta leikskólanum í Rvk. í ágúst. Manni kvíður bara fyrir að flytja í nýtt bæjarfélag, þar sem við höfum svo góða viðmiðun.
Ari fór svo í nefkirtlatöku í október. Hún tókst vel, og er Arinn farinn að sofa betur. Einnig var stungið á eyrun, og virðist sú aðgerð hafa virkað vel 7-9-13.
Undirbúningur fyrir brúðkaup næsta árs var svo hafinn á haustmánuðum. Kirkjan og prestur fundinn og veisluhaldsstaður. Verðandi brúðurin er soldið kvíðin fyrir þessu, enda ekkert mikið fyrir svona vesen. Elskar rútínur og stöðuleika.
Desember kom svo færandi hendi. Húsfreyjan var búin að missa alla von um að finna almennilega framtíðareign og saltaði málið lon og don og bóndinn alveg að missa vitið yfir þessu. Allt í einu datt inn á póstinn eign sem var þokkalega ódýr og í draumahverfinu. Þegar bóndinn fór að kanna málið var eignin seld. Þá sáum við að best væri að skjóta aðeins hærra og kaupa stærri íbúð. Önnur tilraun féll um sig líka, eignin seld. Þá var spurning um að skjóta aðeins hærra og borga fyrir smá útsýni. Það var undarleg tilfinning að skrifa undir kauptilboðið vitandi að það væri samþykkt. Og að fá greiðslumatið, var æðislegt. Við munum að öllum líkindum skrifa undir kaupsamninginn á morgun. Við verðum löglegir eigendur 100 fm gólfflatar, enda fjórðahæðin ekki komin í byggingu.
Vona að næsta ár verði eins viðburðaríkt og með minna af áföllum fyrir Ara.
kv. Elsa