Konurugl

Monday, July 28, 2008

Sitjandi börn




Ég er óendanlega montin af börnunum mínum þessa dagana.

Um helgina fórum við austur í Rangárvallarsýslu í sumarbústað. Ari Þröstur hafði það á orði á leiðinni að hann ætlaði að verða hestamaður þegar hann yrði stór. Hér í Kópavoginum er auðvelt að smitast af hestadellunni. Hér eru reiðstígar og hestar út um allt. Þegar við komum í bústaðin var okkur boðið í gönguferð niður í hesthús. Ari Þröstur var alveg óhræddur við hestana. Og þar var honum boðið að fara á bak. Hann var voða stoltur og flottur á hestbaki. Hann fékk svo líka að sitja hest daginn eftir. Þetta var alveg hápunkturinn í ferðinni. Hann tilkynnti eiganda hestanna að hann ætlaði að kaupa svona hest þegar hann yrði stór.






Sigurást er farin að vera dugleg að nota sitjandan sinn. Hún þarf lítinn sem engan stuðning. Ótrúlega fljót að þessu. Ég hef óneitanlega áhyggjur af því hvort hún eigi þá nokkurntíma eftir að velta sér. Hún fær reyndar ekkert að sitja lengi, enda þreytist mjög fljótt af því. Hún fékk svo í kvöld að sitja í fyrsta skipti til borðs. Hún var reyndar yfir sig spennt yfir stútkönnu með vatni og brjáluð yfir því að geta ekki náð að drekka sjálf úr henni. Hún hefur ekki enn viljað pela, en er sjúk í stútkönnuna. Ekkert smá sport að drekka úr henni.




Sunday, July 13, 2008

Af útsölum, fötum, þvotti og húsmæðrastörfum

Fjölskyldan er nú búin að vera í fríi í 4 vikur. Ari Þröstur er reyndar bara búinn að vera í 1 viku í fríi í leikskólanum en 3 vikur sem hann mætti sama og ekkert. Nú eru 3 vikur eftir hjá Ara Þresti og 4 vikur hjá Arnari. Við erum búin að vera ótrúlega dugleg í fríinu okkar. Búið að vera með skemmtilegri sumrum sem ég hef upplifað.

Þegar maður þarf að fata upp tvö skrímsli er gott að kíkja á útsölur. Ég hef hingað til ekkert sérstaklega þefað upp útsölur, en ákvað að gera það núna. Ég er búin að fata upp börnin nokkuð vel fyrir veturinn og vá hvað það var ódýrt. Held að ég gæti alveg orðið útsölufrík. Maður þarf bara að setja sig í ákveðin gír. Í Zöru gerði ég þvílík góð kaup á Ara Þröst (allt búið í stærðum á Sigurást, nema sumarfatnaður sem hún hefur enga þörf fyrir). Þar tók ég bara allt sem var til í hans stærð og sem mér leyst vel á. Peysur á 400 kr. skyrtur á 1.000 kr og buxur á 1.200 svo eitthvað sé á minnst. Ég gerðist þarna atvinnusjopper. Ég tók aðra slíka syrpu í Next, en gat reyndar ekki klárað alveg vegna tímapressu. Ég stalst svo til að kaupa mér dragt á 10 þús. Ekkert smá ánægð. Keypti reyndar buxurnar aðeins of þröngar um magan. Er að vonast til að hann hverfi áður en ég byrja að vinna aftur, en vigtin er alltaf að stríða mér eitthvað þessa dagana. Kannski er hún biluð!!!

Heimilið sparar reyndar helling af því að hafa mig svona ólögulega. Stefnan er nefnilega að grennast í framtíðinni og á meðan tími ég ekki að kaupa föt, svo pyngjan finnur ekkert sérstaklega fyrir mér, ekki fyrr en allir bolir eru orðnir magabolir og rennilásar og hnappar á buxum eru farnir að gefa sig.

Við erum búin að vera í þvílíkum þvottavandræðum. Þvottavélin bilaði undir pressu, en hitaelementið gaf sig þegar ég var að undirbúa fyrri Húsafellsferðina. Við komum ekki vélinni í viðgerð fyrr en þremur vikum síðar, eða eitthvað álíka. Mömmur okkar Arnars eru búin að hafa okkur eins og gráa ketti, sitjandi fyrir þeim með þvott. En þetta er líka búið að vera ágætt frí, því það munar alveg um það þegar tvær vélar eru að þvo fyrir mann í einu. Nú er draumurinn minn að í framtíðarhúsnæðinu verði ég með pláss fyrir tvær þvottavélar. Vona að það verði áður en börnin flytja að heiman. Einn góður kostur við að setja vélina í viðgerð og að hafa ömurlegt veður er að nú erum við að taka þvottahúsið í gegn, setja upp hillur og svona. Reyndar vonandi bara bráðabirgða aðgerðir. Langar í almennilegar innréttingar í framtíðinni. En gott að koma skipulagi á þetta.

Nú er maður orðin brjáluð húsmóðir og sparnaðarfrík. Við notuðum ónotað gjafabréf í Elko og keyptum brauðvél. Hér er búið að vera nýbakað brauð á boðstólnum. Rosa gaman og gott. Við erum líka búin að vera þvílíkt dugleg að elda og nýta vel allt sem við eigum. Höfum verið of dugleg við að henda afgöngum. Gerði t.d. ótrúlega gott laxasalat úr afgangi úr laxi. Ætla að gera kjúklingasalat á morgun úr afgangnum úr kjúklingnum okkar. Við grilluðum bestu pizzu sem ég hef smakkað fyrir nokkru. Við erum alveg að ná að útrýma skyndibitadrauginum. Og til að losna við bakaríisdrauginn, þá hef ég keypt frosin rúnstykki í krónunni og hita oft í hádeginu og búin að reyna að baka þegar tækifæri gefst. Það er bara búið að vera æðislegt að lifa og prófa sig áfram í matargerð. Nú er bara að reyna að útrýma nammi og snakkdraugunum og þá fer buddan að brosa.