Konurugl

Wednesday, February 04, 2009

Nýr veruleiki

Ég er búin að vera í löngu fríi frá blogginu. Er samt ekki búin að vera andlaus, hef bara einfaldlega ekki nennt að blogga.

Nú er að verða mánuður síðan ég gerði starfslokasamning við Glitni. Það var pínu sjokk, en var búin að búast við þessu lengi. Var fljót að jafna mig og sjá jákvæðu hlutina. Keypti mér strax árskort í ræktina og ákvað að leggja tíma í að rækta mig líkamlega og andlega.

Sigurást byrjaði í aðlögun hjá dagmömmu nokkrum dögum áður en örlög mín voru ljós. Aðlögunin gekk vonum framar, en sem betur fer var dagmömmurnar tilbúnar að minnka plássið í hálfan daginn.

Mitt nýja líf byrjar samt ekkert sérstaklega. Sigurást er búin að fara 6 sinnum til dagmömmu eftir að aðlögunartímanum lauk. Hún er bara alltaf veik. Ég er komin með nóg af þessu hangsi sem því fylgir. Langar að komast í almennilega rútínu og gera eitthvað.

Þetta eru breyttir tímar. Við erum 4 í minni nánustu fjölskyldu búin að fá uppsagnabréf. Önnur dagmamman þurfti að hætta núna í janúar, því 2 börn komust inn á leikskóla og Sigurást var bara hálfan daginn. Um helgina voru tveir gámar fyrir utan blokkina, báðir á leið til Noregs. Í öðru tilfellinu er um að ræða hjón sem bæði voru atvinnulaus. Við vitum af fleirum atvinnulausum í blokkinni. Þetta er ástand sem kom manni í algjörlega opna skjöldu og erfitt hefur verið að melta.

Og mesta sjokkið... ég er farin að prjóna. Ætli helvítið sé frosið?

Tuesday, December 23, 2008

Gleðileg Jól


Thursday, December 04, 2008

Ari, jólasveinninn og óargadýrið

Í dag var ég að skoða bækling frá Húsasmiðjunni og Ari sat við hlið mér. Í bæklingnum var jólasveinn. "Mamma hver leikur þennan jólasvein" spurði hann og ég fékk smá sting í hjartað. "Bíddu er þetta ekki alvöru jólasveinn?" spurði ég til baka. "Ég veit það ekki" sagði Ari raunamæddur. "Af hverju heldurðu að það sé einhver að leika jólasvein?" spurði ég þá. "Ég veit það ekki".

Maður vill að barnið sitt trúi sem lengst á jólasveininn, þannig að ég vona að það hafi bara verið eitthvað við þennan jólasvein sem vakti þessa spurningu. Við sögðum honum líka að jólasveinarnir væru stundum svo uppteknir að þeir leifðu sumum að þykjast vera þeir.

En ég er með í maganum að hann hafi fengið óþarfa vitneskju í leikskólanum. Og ég er með í maganum að mér finnst það vera líklegt að það sé barn sem ég er búin að vera með í maganum yfir síðustu vikuna.

Á deildinni er barn á sama aldri, sem hegðar sér illa. Og við erum bara orðin hrædd um Ara og önnur börn, því hvar endar þetta? Það hefur oftar en 1 sinni meitt Ara, og já fleiri börn. Í sumar var ég vitni þar sem Ari var að fara að renna sér að hann lamdi hann í höfuðið með skóflunni. Í síðustu viku kom Ari með ljótt sár á andlitinu því viðkomandi barn var að sparka hann niður úr stiga sem Ari var að reyna að klifra upp.

Þetta eru ekki eðlilegar stimpingar 4ra ára barns. Hann á einnig bróður í leikskólanum sem er engu skárri. Einnig eiga þeir eldri systur sem við höfum ekki fallega sögu af. Starfsfólk hefur viðurkennt að það séu einhver vandamál heimafyrir.

Hversu mikinn skaða getur 4ra ára barn veitt öðru barni? Mér er ekki sama. Ég er hrædd um Ara í leikskólanum, mér finnst öryggi hans ekki vera gætt. En hvað er hægt að gera við svona óargadýr? Það er varla hægt að gera 4ra ára "saklausu" barni að taka það úr umferð?

Ari er að mestu hættur að tala um þennan strák, en fljótlega eftir að sá byrjaði á leikskólanum, þá fór hann að taka það mjög oft fram að X væri ekki vinur sinn. Ég las eitt kvöldið fyrir hann sögu þar sem boðskapur sögunnar var að Guð elskar alla. Þá sagði Ari að guð elskar ekki X, því hann er vondur. Þá héldum við að þetta væri bara svona þessar venjulegu stimpingar sem að er á milli strákanna á deildinni og sérstaklega 3ja ára strákanna.

Wednesday, November 19, 2008

Draumur Ara

Morgunstundirnar með Ara Þresti eru frábærar stundum. Í morgun vöknuðum við öll saman og lágum öll og kúrðum.

Ari: Mamma við erum ekki að dreyma lengur
Mamma: Nei það er rétt
Ari: Þetta var bara draumur
Mamma: Hvað var þig að dreyma
Ari: þú varst að vinna í banka, en það var ekki Glitnisbanki
Mamma: nú, hvaða banki var það
Ari: Það var bandaríski bankinn
Mamma: og hvað var ég að gera þar
Ari: þú varst bankastjórinn
Mamma: ok
Ari: en bandaríski bankinn var líka íslandsbanki

Það er spurning hvort maður eigi að kíkja í draumaráðningabók barnanna? En fyndið samt að hann sé að dreyma banka. Ég elska þessar morgunstundir og stundum óska ég þess að hann hætti aldrei að koma upp í á næturnar.

Thursday, November 13, 2008

8 mánaða


Skvísan varð 8 mánaða í dag. Ótrúlega fljótt að líða. Tæpir 2 mánuðir þar til ég fer að vinna aftur. Bara jólastússið og svo kemur vinnustússið. Það eru mjög blendnar tilfinningarnar. Maður er í svo mikilli óvissu. Maður veit ekkert hvernig þetta verður.


Hún fékk tennur nr. 5 og 6 í vikunni. Þannig að nú fer hún að geta tuggið ýmislegt. Hún er farin að borða miklu meira af venjulegum mat heldur en Ari á sama tíma. Er búin að gefa henni hakk og spaghetti og svo fær hún oft hrísgrjón. Hún fær bita af pulsum og bita af fiskbollum. Hún er rosalega dugleg að borða kvöldmat. Ekki eins dugleg með hitt, en það er sjálfsagt út af brjóstagjöfinni. Erum að fara að vinna í því að taka næturgjöfina út og svo fer ég að minnka í 3 gjafir áður en ég fer að vinna. Samt spurning hvort maður fari að hætta þessu. Er orðin pínu leið á þessu. Ég lek ennþá alveg hrikalega. Ég er allt í einu farin að fá sár á annað brjóstið, samt ekkert sem ég finn mikið til.


Sigurást Júlía skríður núna allt of hratt og er dugleg að dunda sér við hitt og þetta. Í dag hélt hún svo upp á 8 mánaða afmælið með að standa upp. Ég rétt náði að taka mynd áður en hún féll niður.