Konurugl

Wednesday, July 18, 2007

Fljótt skipast veður...

Mér líður oft eins og einhver að handan sé að stjórna brúðkaupsundirbúningnum. En allavega þá er stundum bara eins og hlutirnir detti upp í hendurnar á manni. Það eru búnar að verða óvæntar breytingar á síðustu metrunum.

Við vorum með stórt leyndó í gangi. En þar sem við erum hætt við það þá ætla ég bara að skella því hér fram. En við ætluðum að fá hestvagn. Við vorum mikið búin að spá og spekúlera í þessu. En þetta var alltaf eitthvað að vefjast fyrir okkur í útfærslu. Í síðustu viku vindur sér maður að Arnari og spurði hann út í brúðkaupið, og bauðst til að lána okkur bíl. Okkur að kostnaðarlausu og keyra að sjálfsögðu. Enginn smá öðlingur þar á ferð. En hann er einhver svaka áhugamaður um svona brúðkaupskeyrslu. Við fáum reyndar ekki jagúarinn sem hann talaði fyrst um, en við fáum glænýjan bens.

Í dag gerðist svo annað. Ég mætti í aðra lokamátun, og það var smá vesen á kjólnum, var alveg orðinn nógu víður, en undirpilsið gerði alltaf einhverja leiðinlegar fellingar. Ég bað hana um að máta kjólinn sem ég hafnaði á sínum tíma. Og viti menn það var eins og hann væri sniðinn á mig. Smellpassaði alveg, og þarf ekkert að breyta honum. Mér leið líka miklu betur í honum. Þannig að þau plön breyttust alveg.

Já þetta er búið að vera frekar skrítið. Við ætluðum ekki að vera með hljómsveit, og nú erum við komin með hljómsveit. Við virðumst ekki getað haldið okkur við upprunalegt plan. Ég ætlaði heldur ekki að vera með blómvönd. Margt svona eitthvað. Þegar ég keypti hálsfestina, var ég búin að velja eina, en þegar var verið að ganga frá henni snérist mér hugur þegar ég sá aðra í borðinu, og vildi fá að máta. En sú festi passar fullkomlega við nýja kjólinn :-)

Á hverjum degi fylgjumst við með veðurspánni á öllum rásum og alls staðar. Líkurnar á útibrúðkaupi fara minnkandi með hverjum deginum. Á æfingunni í gær, æfðum við inni og tókum svo eina stutta úti. Hún gekk ágætlega, fannst þetta samt allt hálf hallærislegt. Þoli ekki þessar leiðindavenjur. En presturinn er soldið formfastur, og vildi lítið breyta út af áætlun.

Ég fékk svo gelneglur í dag, litun og plokkun, og listaverkið verður svo fullkomnað í brúnkunni á morgun. Reyndar verður það ekki alveg fullkomið fyrr en maður er komin með hárgreiðsluna, förðunina og í kjólinn. Mér sýnist á öllu plani að ég verði soldið snemma tilbúin, en farðarinn þurfti að koma svo snemma, vegna anna. Þannig að það er spurning hvað ég geri í klukkustund, með uppsett hár og eins og málverk. Á ég að skreppa í Smáralind, eða kannski í Kringluna og sjá hverjir eru að kaupa gjafir á síðustu stundu. Á ég að skella mér á kaffihús, eða gönguferð, má samt ekki svitna mikið. Kannski ég fari bara í sund, og passi að bleyta ekki andlitið og hárið.

1 Comments:

  • Það verður grenjandi, mígandi rigning á föstudag, það verður skýjað og dropar úr lofti á laugardagsmorgni. Upp úr hádegi styttir upp og fer að rofa til og seinnipartinn verður komin glampandi sól.

    Þessi veðurspá var í boði Guðlaugar, sem veit ALLT um veður.

    By Anonymous Anonymous, At 10:11 PM  

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]



<< Home